HEILSUSAGA - afallasaga.is
15840
page-template,page-template-full_width,page-template-full_width-php,page,page-id-15840,bridge-core-2.1,ajax_fade,page_not_loaded,,no_animation_on_touch,qode_grid_1200,qode-theme-ver-19.7,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive,elementor-default,elementor-kit-16425
 

HEILSUSAGA

HEILSUSAGA ÍSLENDINGA

Heilsusaga er langtíma ferilrannsókn sem hefur að meginmarkmiði að varpa ljósi á áhrif og samspil nútíma lífsstíls, félagslegra aðstæðna, streitu og erfða á heilsu.  Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands við ýmsa innlenda og erlenda samstarfsaðila. Áætlað er að rannsóknin taki til um 100.000 Íslendinga á næstu 10 árum. Þátttakendur fá endurgjöf á lífsstíl sinn og heilsufar í gegnum rannsóknina. Kerfisbundnar forvarnir eru því samtvinnaðar við þessa viðamiklu vísindarannsókn og samfélagslegur ávinningur verkefnisins þannig margþættur.

Forrannsókn Heilsusögunnar hófst í febrúar 2014.

 

Heilsusaga Íslendinga er langtíma ferilrannsókn sem hefur að meginmarkmiði að varpa ljósi á áhrif og samspil nútíma lífsstíls, félagslegra aðstæðna, streitu og erfða á heilsu.  Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands við ýmsa innlenda og erlenda samstarfsaðila. Áætlað er að rannsóknin taki til um 100.000 Íslendinga á næstu 10 árum. Þátttakendur fá endurgjöf á lífsstíl sinn og heilsufar í gegnum rannsóknina. Kerfisbundnar forvarnir eru því samtvinnaðar við þessa viðamiklu vísindarannsókn og samfélagslegur ávinningur verkefnisins þannig margþættur.

Áætlanir gera ráð fyrir að allir fullorðnir Íslendingar á aldrinum 20-69 ára muni fá boð um þátttöku í rannsókninni og verður boðið endurtekið á þriggja til fjögurra ára fresti. Konur munu fá boð um þátttöku gegnum leitarstöð Krabbameinsfélagsins í tengslum við komu í krabbameinsleit (brjóstamyndatöku eða leghálssýnatöku). Karlmenn munu fá kynningarbréf og símtal með boð um þátttöku. Gagnasöfnun er tvíþætt, annars vegar með spurningalista á netinu og hins vegar með stuttri heilsufarsskoðun þar sem klínískum mælingum og lífsýnum er safnað.
Gert er ráð fyrir víðtækri þátttöku vísindamanna við Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands í undirbúningi, framkvæmd og úrvinnslu rannsóknarinnar. Af hálfu Háskóla Íslands er Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði ábyrg fyrir undirbúningi og framvindu verkefnisins og af hálfu Krabbameinsfélagsins eru það Leitarstöðin og Krabbameinsskráin. Heilsusaga er jafnframt hluti af Global Cohort Initiative sem er alþjóðleg samvinna nokkurra ferilrannsókna sem skipulagðar eru víðsvegar í heiminum.

Forrannsókn

Áætlað er að forrannsókn Heilsusögunnar muni hefjast í byrjun árs 2014 og ná til um 500 kvenna í Reykjavík sem mæta í krabbameinsskoðun (brjóstamyndatöku eða leghálssýnatöku) á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Þá verður einnig haft samband við 1000 karlmenn í gegnum úrtak úr þjóðskrá og þeim boðin þátttaka.

Forrannsóknin hefur hlotið leyfi Vísindasiðanefndar og hefur lögum samkvæmt verið tilkynnt til Persónuverndar.

Forrannsókn lokið

Við höfum náð þeim áfanga að ljúka við að skoða yfir 1000 manns í forrannsóknarhópi rannsóknarinnar.  Áfanganum var náð í lok maí mánaðar 2014 og viljum við senda öllum þátttakendum innilegar þakkir fyrir að gefa sér tíma til þátttöku fyrir rannsóknina.

 

 

Þakkir

Starfsfólk Heilsusögu Íslendinga vill koma á framfæri kærum þökkum til þeirra kvenna og karla sem nú þegar hafa lagt sitt af mörkum með þátttöku sinni. Boðun í Heilsusögu hefur gengið gríðarlega vel og hafa nú yfir 500 konur verið skráðar til þátttöku. Boðun karla er enn í fullum gangi og mun standa yfir næstu vikur.

 

 

Áhrif streitu á heilsuna – í Síðdegisútvarpinu á Rás 2

 

Heilsusaga í Sunnudagsmorgni á RUV

Háskóli Íslands

 

 

Forrannsókn Heilsusögunnar er nú formlega lokið.

 

Forrannsókn Heilsusögunnar hófst í febrúar 2014 en þá fengu konur sem áttu tíma í krabbameinsskoðun  boð um þátttöku. Forrrannsókn á meðal kvenna er nú lokið.

Forrannsókn meðal karla á höfuðborgarsvæðinu hófst  í mars og stóð yfir fram í miðjan maí.

 

Hvað felur þátttaka í sér?

Þátttaka í rannsókninni felur í sér að svara spurningalista um heilsu og heilsutengda hegðun á netinu sem tekur að öllu jöfnu um 30-40 mínútur að svara. Auk þess verður framkvæmd stutt heilsufarsskoðun (um 30 mínútur) í húsnæði Krabbameinsfélags Íslands þar sem blóðþrýstingur og hjartsláttarhraði verður mældur, hæð og þyngd, blóðprufa tekin og tvö örsmá hársýni klippt af hnakkasvæði. Lífsýni verða meðhöndluð og arfgerðagreind, og varðveitt í lífsýnasafni Íslenskrar erfðagreiningar á dulkóðuðu formi. Gætt verður fyllsta trúnaðar í meðferð allra upplýsinga; áður en sýni eða upplýsingar verða notuð til vísindarannsókna verða einstaklingsauðkenni fjarlægð og einkennisnúmer sett í staðinn. Öllum þátttakendum í rannsókninni verður síðan boðið í endurkomu á u.þ.b. 2-4 ára fresti.

 

Hvers vegna að taka þátt?

  • Þekking í almannaþágu.  Von okkar er að rannsókn Heilsusögu Íslendinga muni svara mikilvægum spurningum um þróun heilsufars og um áhættuþætti sjúkdóma . Að auki væntum við þess að rannsóknin muni gefa grunn að framúrskarandi þekkingu sem mun efla vísindi og rannsóknir í landinu og vekja athygli á alþjóðavettvangi.
  • Bætt heilsa landsmanna. Aukin þekking er mikilvæg til að byggja upp skilvirkt forvarnarstarf.  Slíkt leiðir af sér inngrip áður en heilsuleysi tekur völd. Þannig stuðlum við að aukinni heilbrigðisvitund og jafnframt að bættri líðan og lífsgæðum komandi kynslóða.
  • Upplýsingar um eigið heilsufar. Allir þátttakendur fá upplýsingar um heilsufar sitt sér að kostnaðarlausu (líkamsþyngdarstuðul og blóðþrýsting), og geta fylgst með þróun í endurteknum  mælingum  á nokkurra ára fresti.

 

Ferlar

Í forrannsókninni verður svarshlutfall metið og forspárþættir fyrir þátttöku. Þá er mikilvægt markmið að kanna upplifun þátttakenda og óskir þeirra, meðal annars um veitta endurgjöf á eigin heilsufari og leiðum til úrbóta. Niðurstöður forrannsóknar munu verða til þess að hægt sé að þróa og bæta rannsóknaraðferðir og þannig auka réttmæti og gæði Heilsusögu Íslendinga.

Heilsusaga Íslendinga er langtíma ferilrannsókn sem hefur að meginmarkmiði að varpa ljósi á áhrif og samspil nútíma lífsstíls, félagslegra aðstæðna, streitu og erfða á heilsu. Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands við erlenda samstarfsaðila. Áætlað er að rannsóknin taki til um 100.000 Íslendinga á næstu 10 árum. Þátttakendur fá endurgjöf á lífstíl sinn og heilsufar í gegnum rannsóknina. Kerfisbundnar forvarnir eru því samtvinnaðar við þessa viðamiklu vísindarannsókn og samfélagslegur ávinningur verkefnisins þannig margþættur.

Áætlanir gera ráð fyrir að allir fullorðnir Íslendingar á aldrinum 20-69 ára muni fá boð um þátttöku í rannsókninni og verður boðið endurtekið á þriggja til fjögurra ára fresti. Konur munu fá boð um þátttöku gegnum leitarstöð Krabbameinsfélagsins í tengslum við boð í skimun (brjóstamyndatöku eða leghálssýnatöku). Karlmenn munu fá kynningarbréf og símtal með boð um þátttöku. Gagnasöfnun er tvíþætt, annars vegar með spurningalista á netinu og hins vegar með stuttri heilsufarsskoðun þar sem klínískum mælingum og lífsýnum er safnað. Söfnun og geymsla upplýsinganna mun byggja á upplýstu samþykki þátttakenda að gefnu leyfi Persónuverndar og Vísindasiðanefndar.
Gert er ráð fyrir víðtækri þátttöku vísindamanna við Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands í undirbúningi, framkvæmd og úrvinnslu rannsóknarinnar. Af hálfu Háskóla Íslands er Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði ábyrg fyrir undirbúningi og framvindu verkefnisins og af hálfu Krabbameinsfélagsins eru það Leitarstöðin og Krabbameinsskráin. Heilsusaga er jafnframt hluti af Global Cohort Initiative sem er alþjóðleg samvinna nokkurra ferilrannsókna sem skipulagðar eru víðsvegar í heiminum.

Þátttakendur fá endurgjöf á heilsufarsþætti eins og líkamsþyngdarstuðul, blóðþrýsting, púls og mittis-og mjaðmaummál.  Hjúkrunarfræðingur veitir ráðgjöf og vísar þátttakendum áfram sé þess þörf innan heilbrigðiskerfisins (t.d. á heilsugæslu eða heimilislæknis).

Heilsufarsskoðun

 

Heilsufarsþættir voru valdir til þess að auka þekkingu á samspili erfða, lífsstíls og streitu á heilsufar þjóðarinnar.  Reyndir hjúkrunarfræðingar munu framkvæma skoðanir og munu þeir gæta fyllsta trúnaðar varðandi rannsóknar niðurstöður.

Heilsufarsskoðun mun taka u.þ.b 20-30 mín og í kjölfar hennar munu þátttakendur fá ráðgjöf og tilvísanir til heimilislæknis eða sérfræðings, sé þess þörf.  Öllum þátttakendum mun verða heimilt að neita einstökum þáttum skoðunar, sé þess óskað getur þátttakandi einnig dregið þátttöku sýna alfarið til baka á hvaða tímapunkti sem er.   Heilsufarsskoðanir munu fara fram í húsnæði Krabbameinsfélags Íslands við Skógarhlíð 8 strax í kjölfar krabbameinsskoðunar hjá konum en eftir hentugleika fyrir karlmenn.  Allar rannsóknarniðurstöður og sýni munu verða dulkóðuð til þess að tryggja öryggi einstaklingsins um persónuvernd.

Heilsufarsþættir til skoðunar:

  • Líkamsþyngdarstuðull  (BMI) –  þyngd/hæð²:Viðmiðunarmörk og ráðgjöf
    Of létt/ur  ˂ 18,4 Ef þú ert ekki nú þegar í eftiriliti vegna þyngdar og ráðgjöf við að auka orkugjöf þína varðandi mataræði þá er þér ráðlagt að leita þér aðstoðar hjá heimilislækni eða hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöð þinni.
    Kjörþyngd 18,5 – 24,9 Allir ættu að stunda að reglulega hreyfingu (amk 30 mínútur á dag) og huga að hollu mataræði.
    Yfirþyngd 25 – 29,9 Þú mættir íhuga reglulega hreyfingu og ráðlagt mataræði til að stuðla að heilbrigðu líferni.
    Offita ˃ 30 Ef þú hefur ekki þegar gert viðeigandi ráðstafanir er mælt með að þú leitir ráðgjafar hjá heimilislækni til þess að ná kjörþyngd.
    Mikil hætta á þróun

    hjarta- og æðasjúkdóma

    ≥ 36 Það er mjög brýnt að þú gerir viðeigandi ráðstafanir varðandi hreyfingu og mataræði og mælt er með að þú leitir ráðgjafar hjá heimilislækni til þess að ná kjörþyngd.

     

    Þótt líkamsþyngdarstuðull gefi hugmynd um áhættu þína hvað varðar sjúkdóma gerir hann ekki greinarmunun á því hvort umframþyngdin er vegna vöðva eða fitu. Dæmi eru um sterkbyggða íþróttamenn með mikinn vöðmassa sem hafa BMI yfir 30 þótt þeir þjáist ekki af offitu. Því þarf að túlka BMI varlega hjá smágerðum og stórgerðum einstaklingum svo og þeim sem hafa mikinn vöðvamassa.

    Þrátt fyrir takmarkanir á LÞS sem mælingu þá hefur stuðullinn gagnast vel við að mæla breytingar á hópum yfir tíma.

    Hvernig viðhöldum við æskilegu BMI

    • Höfum reglu á matmálstímum, borðum 4-5 sinnum á dag
    • Höldum neysluvenjum í samræmi við orkuþörf
    • Veljum réttar skammtastærðir
    • Borða vel af grænmeti og ávöxtum með mat
    • Stundum reglulega hreyfingu amk 30 mín á dag
    • Neytum vatns sem er besti heilsudrykkurinn
    • Borðum lítið af sykri og einföldum kolvetnum

    Líkamsþyngdarstuðull

    Líkamsþyngdarstuðull (LÞS)er reiknaður út frá hæð og þyngd með jöfnunni kg/m2..  Samkvæmt skilgreiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar miðast kjörþyngd við 18,5-24,99, ofþyngd við 25-29,99 en offita við 30 eða hærra. Líkamsþyngdarstuðull sem mæling á þyngd og massa hefur verið nokkuð umdeildur þar sem ekki er gerður greinarmunur á aldri eða kyni, jafnframt þá er ekki hægt að greina á milli líkamsþyngdar sem stafar af fitu, vöðvum eða öðrum vefjum líkamans.  Líkamsþyngdarstuðul þarf því að túlka gætilega en vissulega er þetta sú mæling sem rannsóknir hafa sýnt fram á að tengist aukinni dánartíðin meðal þeirra sem eru yfir kjörþyngd.  Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að þeir sem eru yfir kjörþyngd séu í aukinni áhættu á hinum ýmsu sjúkdómum.  Þess ber þó að geta að rannsóknum ber ekki alltaf saman um áhættu þeirra sem flokkast í ofþyngd og þeirra sem flokkast í offitu, á sjúkdómum og dánartíðni.  Sumar rannsóknir sýna eins konar u- laga samband, en með því er átt við að áhættan sé aðeins tilkomin hjá þeim sem flokkast í undirvigt (< 18) og þeim sem flokkast í offitu (≥ 30).

    Algengi offitu hefur þrefaldast frá árinu 1980 í Evrópu.  Samkvæmt skýrslu sem gefin var út árið 2009 af Landlæknisembættinu, voru um 19% karla í offitu (LÞS ≥30) á Íslandi og um 21% kvenna voru í sama hópi (LÞS ≥30).  Rannsóknir hafa sýnt að offita dregur úr meðal ævilengd einstaklinga.  Rannsókn frá Bandaríkjunum sýndi að karlar og konur sem voru með hærri líkamsþyngdarstuðul en 30 (offita) við 40 ára aldur lifðu 6-7 árum skemur en þeir sem voru í kjörþyngd.

    Það að vera í yfirvigt eða offitu setur okkur í aukna áhættu á sjúkdómum á borð við hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki 2 (insúlínóháð sykursýki).  Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur reiknað út að draga megi úr um 64% tilfella sykursýki 2 með því að halda líkamsþyngdarstuðli við eða undir 25 kg/m2..

    Hafa þarf hugfast að þegar fjallað er um samband ofþyngdar og offitu við heilsufar, að sambandið grundvallast á fleiri undirliggjandi þáttum á borð við hreyfingu og mataræði.

    Góð hreyfing og hollt mataræði eru undirstöðuatriði þegar kemur að því að viðhalda æskilegum líkamsþyngdarstuðli. Hreyfum okkur daglega, 30 mínútur í senn. Það bætir heilsu og vellíðan.

    Heimildir:

    Drewnowski, A. (2009). Obesity, diets, and social inequalities. Nutr Rev, 67 Suppl 1, S36-39.

    Fegal, M. K., Glaubard, B.I., Williamson, D.F. og Gail, M.H., (2005). Excess deaths associated with undiweight, overweight and obesity.  Journala of the American Medical Accociation 293, (15), bls 1861-1867.

    Valdimarsdóttir, M., Jónsson, S.H., Þorgeirsdóttir, H., Gísladóttir, E., Guðlaugsson, J.Ó., Þórlindsson,Þ. (2009).  Líkamsþyngd og holdafar fullorðinna Íslendinga frá 1990 til 2007. Lýðheilsustöð. Sótt af  http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11583/Holdafar.skyrsla.25.sept.pdf

    WHO. (2007). The challenge of obesity in the WHO European Region and the strategies for response.  Sótt af http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0008/98243/E89858.pdf

     

    Frekari fróðleikur um líkamsþyndarstuðul:

    Reiknaðu út BMI stuðul þinn

    Hvað er BMI-stuðull? 

    Fróðleikur Hjartaverndar um offitu

  • Mittis  og mjaðmaummál (Waist-hip ratio = mjaðmamál / mittismál):Viðmiðunarmörk og ráðgjöfÚtreikningur mittis- og mjaðmahlutfalls:Waist Hip ratio = (Mittismál / Mjaðmamál)

    Háskóli Íslands

    Grænt   Eðlilegt, halda áfram heilsusamlegum lifnaðarháttum.

    Gult       Niðurstöður á jaðri, vera á varðbergi.  Ástundun reglulegrar hreyfingar og huga að réttu mataræði.

    Blár       Vera á varðbergi fyrir aukinni þyngd, e.t.v. breyta lifnaðarháttum, hreyfing og bætt mataræði. Leita aðstoðar ef þarf.

    Rautt     Leita hjálpar og breyta lifnaðarháttum.

    Fita sem leggst framan á kvið er talin hættulegri fyrir hjarta- og æðakerfið en önnur fita.  Taka verður tillit til líkamsbyggingar hverju sinni t.d. ef lítill munur er á mittismálinu annars vegar og mjaðmaummálinu hins vegar þá skorar einstaklingurinn auðvitað hærra.  Af þessu gefnu er ekki alltaf hægt að álykta að einstaklingurinn sé með of mikla kviðfitu/innri fitu.

    Mittismál getur verið gagnlegt bæði til að meta offitu og einnig til að fylgjast með hvernig gengur að grenna sig.

    Hvernig geturðu spornað við auknu mittisummáli:

    • Borða 4-5x á dag í minni skömmtum
    • Borða vel af grænmeti og ávöxtum með mat
    • Sleppa hvítum sykri og einföldum kolvetnum
    • Sleppa sykruðum drykkjum
    • Regluleg hreyfing amk 30 mín á dag
    • Drekka vel af vatni

    Þegar mæla á mittis- og mjaðmaummál er einfaldlega notast við málband og skiptir því gríðarlegu máli að rétt sé farið að og að sömu aðferðum sé fylgt eftir við hverja mælingu.  Taka þarf tillit til fjölda þátta þegar mæling er framkvæmd, til að mynda staðsetningu málbands, þéttleika  mælingar (stífni) og gerð málbands. Hér er stöðlun mælitækja og vinnubraga lykilatriði.

    Mittis- og mjaðmaummál hefur verið talin góð mæling til viðbótar við líkamsþyngdarstuðul.  Mittis- og mjaðmaummál hefur jákvæða fylgni við innri kviðfitu, þ.e.a.s með vaxandi ummáli hækkar jafnframt innri kviðfita því má segja að mælingin gefi góða vísbendingu um innri kviðfitu.  En hvers vegna er mikilvægt að mæla innri fitu?  Svarið við þessari spurningu er byggt á fjölda rannsókna sem hafa sýnt að innri fita er talsvert hættulegri heldur en önnur fita, því hún tengist óeðlilegum efnaskiptum (t.d. skertu sykurþoli og/eða hækkun á slæmum blóðfitum) sem svo auka líkur á sjúkdómum á borð við sykursýki 2 og hjarta- og æðasjúkdóma.

     

    Heimildir:

    Word health organization(2011). Waist circumference and Waist-Hip ratio. Report of WHO Expert Concultation.  Sótt af http://whqlibdoc.who.int/publications/2011/9789241501491_eng.pdf

    Carmienke, S.,Freitag, M.H., PischonT.,Schlattmann, P.,Fankhaenel, T.,Goebel, H.,  Gensichen, J.(2013).General and abdominal obesity parameters and their combination in relation to mortality: a systematic review and meta-regression analysis.  European Journal of Clinical nutrition, 67, 573-585.

     

    Frekari fróðleikur um mittis- og mjaðmaummál

    Reiknaðu út mittis- og mjaðmaummál þitt (waist to hip ratio).

  • Blóðþrýstingur:Viðmiðunarmörk og ráðgjöf
    ≤ 120/80 mmHg Grænt ljós – Kjörþrýstingur

    Blóðþrýstingur þinn er innan eðlilegra marka

    Mælt er með að þú haldir áfram heilbrigðum lifnaðarháttum og látir mæla blóðþrýsting þinn á ca 5 ára fresti.
    ˂ 135/85 mmHg Grænt ljós – Eðlilegur blóðþrýstingur 

    Blóðþrýstingur þinn er innan æskilegra marka

    Mælt er með að þú haldir áfram heilbrigðum lifnaðarháttum og látir mæla blóðþrýsting þinn á ca 5 ára fresti
    135-139 / 85-89 mmHg Gult ljós – Jaðarháþrýstingur

    Blóðþrýstingur þinn er innan marka en vægt hækkaður, jaðarhækkun.

    Mælt er með að þú fylgist reglulega með blóðþrýstingnum hjá heimilislækni eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni og stundir reglulega hreyfingu og bætir mataræði ef þarf.
    ≥ 140-160 / 90-95 mmHg Rautt ljós – Háþrýstingur

    Blóðþrýstingur þinn er yfir æskilegum viðmiðum .

    Ef þú hefur ekki þegar gert viðeigandi ráðstafanir þá mælum við með að þú leitir ráðgjafa hjá heimlilislækni þínum. Mikilvægt ástundun reglulegrar hreyfingar og bætt mataræði.

     

    Hvað er hægt að gera til að vinna gegn háþrýstingi/ heilablóðfalli:

    • Þyngdartap/léttast  – breyta mataræði, ekki svelti.
    • Reglubundin hreyfing.
    • Minnkuð saltneysla.
    • Takmörkun á áfengisneyslu.
    • Ástundun slökunar – minnka streituvalda.

    Helstu áhættuþættir háþrýstings:

    • Erfðir
    • Kyn
    • Offita
    • Hreyfingarleysi
    • Reykingar
    • Of mikil saltneysla
    • Ofneysla áfengis
    • Fyrri heilsufarsþættir

    Annars eru orsakir óþekktar í 95% tilfella.

  • Púls:Viðmiðunarmörk og ráðgjöfHjartsláttartíðni
    • Meðalhvíldarpúls 72 sl/min
    Æskilegur hvíldarpúls 50 – 80 sl/min Mælt er með að þú haldir áfram heilbrigðum lifnaðarháttum og látir mæla púlsinn þinn amk á 5 ára fresti.
    Of lágur hvíldarpúls ≤ 49 sl/min Mælt er með að þú hafir samband við heimilislækni eða annan heilbrigðisstarfsmann til frekari skoðunar.
    Of hár hvíldarpúls ≥ 90 – 100 sl/min Mælt er með að þú hafir samband við heimilislækni eða annan heilbrigðisstarfsmann til frekari skoðunar.

    Óreglulegur hjartsláttur:  þá er mælt með því að þátttakandi leiti til læknis til frekari skoðunar.

    Hvað getur þú gert við háum púls eða fyrirbyggt háan púls:

    • Stunda þol- eða brennsluæfingar (hraða göngu, skokk, hlaup, sund)
    • Viðhalda þyngd innan skynsamlegra marka
    • Fyrirbyggja streituvaldandi aðstæður
    • Minnka koffínneyslu
    • Minnka sykurneyslu
    • Hætta að reykja
  • Blóðsýnataka: Áætlað er að blóðsýnum (40 ml per einstakling) verði safnað frá öllum þátttakendum. Blóðsýni verða varðveitt undir kóða í Lífsýnasafni Íslenskrar erfðagreiningar en með því tryggjum við öryggi þitt sem þátttakenda um persónuvernd. Að frátöldum smávægilegum óþægindum eru litlar líkur á aukaverkunum eða áhættu tengdum blóðsýnatöku.  Tveir hjúkrunarfræðingar verða á svæðinu og munu þær annast blóðsýnatöku ásamt heilsufarsskoðun í heild sinni.  Hjúkrunarfræðingar rannsóknar eru vel þjálfaðir og hafa unnið klíníska vinnu til fjölda ára.
  • Hársýni – þar er mælt magn streituhormónsins kortisóls í hárinu (klipptir tveir mjög litlir lokkar úr hári fyrir neðan hnakkabeinið aftarlega á höfði)

Meginmarkmið Heilsusögu Íslendinga er að varpa ljósi á áhrif og samspil nútíma lífsstíls, félagslegra aðstæðna, streitu og erfða á heilsu.

 Háskóli Íslands

Alþjóðlegt samstarf

Rannsóknarhópurinn sem stendur að baki Heilsusögu Íslendinga er í traustu samstarfi við erlendar vísindastofnanir sem framkvæma nú svipaðar rannsóknir (Karolinska Institutet í Stokkhólmi og Harvard School of Public Health í Boston). Heilsusaga er þannig hluti af „Global Cohort Initiative“ sem er alþjóðleg samvinna nokkurra ferilrannsókna sem skipulagðar eru víðsvegar í heiminum. Slíkt alþjóðlegt samstarf er ómetanlegt fyrir undirbúning og starfsemi rannsóknarinnar.

Hans-Olov Adami prófessor við Harvard School of Public Health er sérstakur ráðgjafi í verkefninu en hann á að baki reynslumikinn starfsferil sem snýr að framkvæmd slíkra rannsókna, þ.á.m. ferilrannsóknina Lifegene í Svíþjóð (N=500.000).

Innlent samstarf

Háskóli Íslands og Krabbameinsfélag Íslands undirrituðu samfsstarfssamning í janúar 2012 um samstarf að Heilsusögubanka Íslendinga.

Af hálfu Háskóla Íslands er Miðstöð í Lýðheilsuvísindum við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði ábyrg fyir undirbúningi og framvindu verkefnisins og af hálfu Krabbameinsfélagsins eru það Leitarstöðin og Krabbameinsskráin. Framlag þessara stofnana felst þannig í vinnuframlagi vísindamanna og að veita aðstöðu til gagnaöflunar og úrvinnslu rannsóknar.

Heilsusaga Íslendinga hefur jafnframt samstarf við Íslenskri Erfðagreining um vistun lífsýna og framkvæmd erfðafræðirannsókna.

 

Spurningalisti Heilsusögunnar byggist upp á eftirfarandi grunnþemum;

  1. Bakgrunnur
  2. Lífstíll
  3. Geðheilsa
  4. Heilsufarssaga
  5. Meðferð
  6. Karlar og heilsa
  7. Konur og heilsa

Þátttakendur munu fá sendar upplýsingar og slóð á spurningalista og áætlað er að það taki hvern þátttakanda frá 30 mínútum og upp í 50 mínútur að svara.

Bakgrunnur

Í bakgrunnshluta spurningalista er spurt um ýmsa lýðfræðilega þætti;  fjölskylduhagi, atvinnu, húsnæði og  heimilislíf.  Í fjölda erlendra og innlendra rannsókna hefur verið sýnt fram á svokallaðan menntunarhalla þegar kemur að sjúkdómsbyrði og dánartíðni. Það er að einstaklingar sem hafa minni menntun eru almennt líklegri til að fá ákveðna sjúkdóma heldur en þeir með meiri menntun og öfugt.

Lífsstíll 

Í lífsstílshluta rannsóknarinnar er spurt um hreyfingu, húsnæði, svefnvenjur,  tóbaks- og áfengisnotkun og mataræði.

Þekkt er að hreyfing getur minnkað líkur á ýmsum sjúkdómum.

Loftgæði innandyra og húsakostur geta haft áhrif á heilsufar einstaklinga.

Svefn er grundvallarskilyrði fyrir góðri líkamlegri og andlegri líðan. Spurt er um lengd og gæði svefns ásamt almennum dægursveiflum.

Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á tengsl reykinga við lungnakrabbamein og fleiri tegundir krabbameina.  Reykingar geta einnig valdið því að sjúkdómur sem þegar hefur myndast geti versnað við neyslu á tóbaki. Ásamt reykingum er einnig spurt um notkun á reyklausu tóbaki eins og munn- og neftóbaki.

Óhófleg áfengisneysla getur haft bæði líkamlegar og andlegar afleiðingar þar sem að óhófleg neysla áfengis getur leitt til félagslegrar einangrunar, geðraskana, ýmissa sjúkdóma og kvilla.

Mataræðisspurningar gera rannsakendum kleift að rannsaka nánar flókið samband mataræðis og hinna ýmsu sjúkdóma á borð við offitu, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki 2 og meltingarsjúkdóma.

 

Andleg líðan

Í þessum hluta er spurt um þætti sem áhrif hafa á andlega líðan, svo sem félagslegan stuðning, daglegar áhyggjur og streitu. Þá er skimað fyrir einkennum þunglyndi og kvíða og spurt um líkamsímynd og einkenni athyglisbrests.  Einnig er spurt um áföll og erfiða lífsreynslu og áhrif á líðan í dag.

 

Heilsufarssaga

Heilsufarssaga spannar vítt svið þar sem spurt er um verki, síþreytu, veikindi, lyfjameðferð, sjúkdóma, ofnæmi, höfuðverk og tinnitus (eyrnasuð).

Þátttakendur eru spurðir hvort þeir hafi verið greindir með sjúkdóm sem tengjast: hjarta, lungum, húð, innkirtlum, meltingu, þvagfærakerfi, stoðkerfi, taugakerfi, geðheilsu og sjúkdómum sem greinast í barnæsku. Í þeim tilfellum sem einstaklingur hefur sjúkdóm verður leitað eftir nánari upplýsingum um viðkomandi sjúkdóm til að mynda tegund skjaldkirtilssjúkdóms, tegund og meðferð við sykursýki og meðferð og greining á háþrýsting.

Meðferð

Í meðferðarhluta er spurt um notkun þátttakanda á  lausasölu- og lyfseðilskyldum  lyfjum, um ástundun líkamsræktar og meðferðar vegna andlegrar eða  líkamlegrar vanlíðunar.

Heilsa kvenna og karla

Mikilvægt er að kynjasjónarmið séu með frá upphafi rannsókna þar sem karlar og konur upplifa ólík heilsufarseinkenni.

Bæði kyn verða spurð um kynhegðun sína, þá sértaklega um áhættusækna  kynhegðun og sjúkdóma sem smitast við kynmök.

Heilsa kvenna

Ýmsir þættir sem tengjast konum sérstaklega eru mikilvægir áhrifaþættir heilsu. Í spurningalistanum er sérstökum sjónum beint að þessum þáttum og reynslu kvenna af þeim, eins og kynhegðun, blæðingum, getnaðarvörnum, þungunum, ófrjósemi, breytingaskeiði, beinþynningu og þvagleka.

Heilsa karla

Karlar eru einnig spurðir sérstaklega um þætti sem geta tengst þeim sérstaklega, eins og kynhegðun, notkun getnaðarvarna og einkenni frá blöðruhálsi.

Fyrir utan ótvíræðan vísindalegan ávinning og almannahag er helsti beini ávinningur rannsóknar fyrir þátttakendur fólginn í þeirri einstaklingsmiðuðu endurgjöf sem allir þátttakendur fá um heilsufar sitt. Hver þátttakandi fær persónulega endurgjöf um grunn heilsufarsvísa.  Jafnframt verða öll heilsufarsleg gildi skráð niður á sérstakt heilsufarskort sem þátttakandi fær að taka með sér heim í lok skoðunar.  Þeir sem eru fyrir ofan viðmiðunarmörk fá eftir atvikum heilsueflingarráð eða tilvísun til heilsugæslu eða sérfræðingsþjónustu

Rannsóknin hefur hlotið samþykki Vísindasiðanefndar og lögum samkvæmt verið tilkynnt til Persónuverndar.

Það er eðilegt að þátttakendur upplifi mögulega óöryggi í því að miðla viðkvæmum persónuupplýsingum um heilsufar sitt og lífsstíl.  Skipuleggjendur rannsóknarinnar hafa þess vegna lagt mikla vinnu í að tryggja öryggi og persónuvernd þátttakenda. Svör við spurningalistum verða geymd  í dulkóðuðum gagnagrunni við Háskóla Íslands og lífsýni verða einnig geymd á dulkóðuðu formi í lífsýnasafni Íslenskrar erfðagreiningar.

Niðurstöður rannsókna sem byggja á rannsóknargrunni Heilsusögu Íslendinga verða birtar í ritrýndum vísindatímaritum á alþjóðavettvangi. Nafnleyndar og persónuverndar verður ávallt gætt í hverri rannsókn sem byggir á gögnum Heilsusögu Íslendinga.  Ekki á nokkru stigi rannsóknarinnar, hvorki í vistun gagna, úrvinnslu eða birtingu niðurstaðna er hægt að rekja upplýsingar til einstakra þátttakanda. Þetta eru grundvallarskilyrði rannsóknarinnar.

Hrafnhildur Eymundsdóttir, MPH, lýðheilsufræðingur og verkefnastjóri upplýsinga og þátttöku.

Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, sjúkraþjálfari og MPH, heilsufarsskoðun.

Jóna Ellen Valdimarsdóttir BS, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri heilsufarsskoðana.

Ólöf Elsa Björnsdóttir, BS, MPH, hjúkrunarfræðingur í heilsufarsskoðun.

Þórunn Guðmundsdóttir lífeindafræðingur, umsjón og úrvinnsla blóðsýna.

Þuríður Anna Guðnadóttir BS, hjúkrunarfræðingur í heilsufarsskoðunum.

  • Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er:Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum við læknadeild Háskóla Íslands HÍ. 

    Auk hennar skipa stýrihópinn: 

    Arna Hauksdóttir, dósent í lýðheilsuvísindum HÍ,

    Sigurður Guðmundsson, prófessor og fyrrum landlæknir og forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ,

    Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri KÍ,

    Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar HÍ,

    Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár,

    Helga Zoëga, dósent í lýðheilsuvísindum HÍ

    Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, dósent í heilsuhagfræði við HÍ.

Heilsusaga Íslendinga hefur notið stuðnings fjölda fyrirtækja, stofnana og vísindasjóða:

  • Actavis
  • Eirberg
  • NOVA
  • Nói Síríus
  • Háskóli Íslands
  • Íslensk Erfðagreining
  • Technische Universität Dresden
  • Krabbameinsfélag Íslands
  • Lýðheilsusjóður
  • Rannsóknasjóður Háskóla Íslands
  • Samfélagssjóður Landsbankans
  • Tinnitussjóður
  • Vísindasjóður Landspítalans

Gert er ráð fyrir víðtækri þátttöku vísindamanna við Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands í undirbúningi, framkvæmd og úrvinnslu rannsóknarinnar. Af hálfu Háskóla Íslands er Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði ábyrg fyrir undirbúningi og framvindu verkefnisins og af hálfu Krabbameinsfélagsins eru það Leitarstöðin og Krabbameinsskráin. Heilsusaga Íslendinga hefur jafnframt samstarf við Íslenska Erfðagreiningu um vistun lífsýna og framkvæmd erfðafræðirannsókna.

Heilsusaga Íslendinga erer jafnframt hluti af Global Cohort Initiative sem er alþjóðleg samvinna nokkurra áþekkra ferilrannsókna sem skipulagðar eru víðsvegar í heiminum.

Vísindamenn sem hafa áhuga á samvinnu við rannsóknargrunn Heilsusögunar geta haft samband við aðalrannskanda:

Unnur A. Valdimarsdóttir, prófessor, unnurav@hi.is