Margt fólk upplifir einkenni áfallastreitu eftir áföll sem geta haft mikil áhrif á líf þess. Eitt helsta einkennið eru áleitnar minningar, eða minningar um áfallið/áföllin sem eru óvelkomnar, vekja sterkar tilfinningar og koma óvænt upp í hugann. Aðgengi fólks að sálrænni meðferð eftir áföll er því miður takmarkað og er eitt markmið rannsóknarinnar að auka slíkt aðgengi og þróa einfaldari lausnir til að takast á við þennan alvarlega vanda.
og er markmið hennar að kanna hvort einfalt inngrip geti dregið úr áleitnum minningum eftir áföll.
Lóu rannsóknin er samstarfsverkefni milli Háskóla Íslands og Uppsala háskóla í Svíþjóð og koma að því vísindafólk með sérþekkingu í klínískri sálfræði, faraldsfræði og hugrænni taugasálfræði.
Þátttakendur eru valdir af handahófi úr hópi kvenna sem tóku þátt í Áfallasögu kvenna. Forrannsókn lauk haustið 2022 og hefst aðalrannsókn vorið 2023. Mögulegir þátttakendur fá sent boð um þátttöku í tölvupósti og í framhaldinu ítarlegar upplýsingar um tilhögun rannsóknarinnar. Um er að ræða einfalt inngrip og fer öll þátttaka fram á netinu.
Rannsóknin hefur fengið leyfi Vísindasiðanefndar og verið tilkynnt til Persónuverndar. Við vonum að sem flestar konur sem fá boð um þátttöku hafi tök og áhuga á að vera með í rannsókninni. Góð þátttaka gæti orðið til þess að bæta sálræna meðferð fólks sem hefur lent í áföllum.
Alumni
Við erum þakklát fyrir stuðning frá Rannsóknasjóði Íslands (RANNÍS), Markáætlun um samfélagslegar áskoranir og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og The Oak Foundation.