ADHD tengist auknum líkum á hjarta- og efnaskiptaröskunum hjá konum
16697
post-template-default,single,single-post,postid-16697,single-format-standard,bridge-core-2.1,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-title-hidden,qode_grid_1200,qode-theme-ver-19.7,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive,elementor-default,elementor-kit-16425

ADHD tengist auknum líkum á hjarta- og efnaskiptaröskunum hjá konum

Nýjar niðurstöður úr rannsókninni Áfallasaga kvenna voru birtar í nóvember 2023 í tímaritinu BMC Medicine.

Fyrsti höfundur greinarinnar var Unnur Jakobsdóttir Smári doktorsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands en hana skrifaði hún undir handleiðslu Helgu Zoega prófessors við sömu deild. Rannsóknin er hluti af TIMESPAN verkefninu sem hefur það meginmarkmið að auka þekkingu og bæta meðferðarúrræði fyrir þá sem glíma við ADHD og hjarta- og efnaskiptaraskanir (e. cardiometabolic conditions) eins og hjartasjúkdóma og sykursýki 2.

Niðurstöðurnar sýna að konur sem greindar hafa verið með ADHD hafa hærri tíðni hjarta- og efnaskiptaraskana, m.a. hjartaáföll, sykursýki 2, háþrýsting og offitu, miðað við konur sem ekki hafa greinst með ADHD. Einnig eru vísbendingar um að konur með ADHD gætu fengið hjarta- og efnaskiptaraskanir fyrr á lífsleiðinni en þær konur sem ekki eru með ADHD. Þá eru þær konur sem glíma við bæði ADHD og hjarta- og efnaskiptaraskanir með aukin einkenni þunglyndis, kvíða og áfallastreituröskunar, þær eru líklegri til þess að hafa greinst með kvíða- og lyndisraskanir, auk þess sem saga um sjálfsskaða og sjálfsvígstilraunir var algengari hjá þessum hópi miðað við konur sem eru með hjarta- og efnaskiptaraskanir en eru ekki með ADHD.

Niðurstöðurnar ýta undir mikilvægi þess að ADHD sé greint og meðhöndlað hjá konum og að hugað sé að þeim fylgiröskunum sem konur með ADHD glíma oft við, bæði líkamlegum og andlegum.


Rannsóknina í BMC medicine má nálgast á vef tímaritsins.

Nánari upplýsingar veitir Unnur Jakobsdóttir Smári ujsmari@hi.is