Áfalla- og streituraskanir – ein megináskorun lýðheilsuvísinda 21. aldar - afallasaga.is
15239
post-template-default,single,single-post,postid-15239,single-format-standard,bridge-core-2.1,ajax_fade,page_not_loaded,,no_animation_on_touch,qode-title-hidden,qode_grid_1200,qode-theme-ver-19.7,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive,elementor-default,elementor-kit-16425

Áfalla- og streituraskanir – ein megináskorun lýðheilsuvísinda 21. aldar

Fréttin birtist á Kjarnanum 30.12.2019

Unnur Valdimarsdóttir faraldsfræðingur‚ Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands‚ gestaprófessor við deild læknisfræðilegrar faraldsfræði og líftölfræði‚ Karolinska Institutet og faraldsfræðideild Harvard TH Chan School of Public Health skrifaði eftirfarandi ritstjórnargrein í Læknablaðið í Nóvember 2019.

Á seinni hluta 20. aldar náðist mikill árangur í forvörnum gegn ýmsum skæðum sjúkdómum og lífslíkur manna á heimsvísu jukust á þessu tímabili um rúmlega 30 ár.1 Dæmi um áfanga sem áttu þátt í að skila þessum ávinningi eru uppgötvanir sýklalyfja og bóluefna gegn úrbreiðslu smitsjúkdóma en einnig hagnýting þekkingar á vægi lífsstílsþátta, þar á meðal reykinga og blóðfitu, í þróun hjarta- og æðasjúkdóma. Hér ber líklega hæst verulegan árangur í reykingaforvörnum en samkvæmt samantekt Embættis landlæknis hefur algengi daglegra reykinga meðal fullorðinna Íslendinga minnkað úr 50% árið 1970 í 11,5% árið 2015.2

En eru í sjónmáli nýjar áskoranir og landvinningar að bættri lýðheilsu? Sterk rök eru fyrir því að ein mikilvægasta áskorun 21. aldar um bætt lífsgæði og jafnframt lífslengd manna felist í aukinni þekkingu á heilsufarslegum afleiðingum langvinnrar streitu, áfalla og áfallatengdum röskunum ásamt forvörnum og meðferð á því sviði.

Tæplega þriðjungur manna mun þróa með sér geðröskun af einhverju tagi einhvern tímann á lífsleiðinni3 en nýgengið eykst verulega í kjölfar áfalla og þungbærrar lífsreynslu á borð við ofbeldi, náttúruhamfarir, tekju- eða atvinnumissi, greiningu lífshættulegra sjúkdóma innan fjölskyldu og ástvinamissi. Þessir atburðir eru algengir í okkar samfélagi – til dæmis má gera ráð fyrir því að þriðjungur kvenna verði fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi og flest okkar upplifa alvarleg veikindi og/eða ástvinamissi einhvern tímann á lífsleiðinni. Til viðbótar við aukna hættu á geðröskunum í kjölfar áfalla hafa rannsóknir á síðustu árum rennt styrkum stoðum undir tengsl áfalla og áfallatengdra raskana við þróun líkamlegra sjúkdóma.

Áhugi vísindamanna á þætti áfalla og streitu í þróun líkamlegra sjúkdóma er ekki nýr af nálinni en fyrstu rannsóknir á þessu viðfangsefni voru flestar smáar í sniðum og oft með verulegum aðferðafræðilegum annmörkum. Þó komu fram vísbendingar um tengsl streitu við þróun kvefpesta sem og áhrif samfélagslegra áfalla, til dæmis náttúruhamfara, á dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Upp úr aldamótum hafa einnig bæst við sterkar vísbendingar úr dýramódelum og klínískum rannsóknum á mönnum um sál-lífeðlisfræðilega ferla streitu um undirstúku-heiladinguls- nýrnahettu-öxulinn og sympatíska taugakerfið og neikvæð áhrif þeirra á hjarta-, æða- og ónæmiskerfi.

Eftir nær 20 ára vísindastarf á þessu sviði hlaut rannsóknarhópur minn fyrir nokkru veglega styrki frá Evrópska rannsóknarráðinu og Rannsóknasjóði Íslands sem gefa starfi okkar verulega innspýtingu. Hluti rannsóknanna er unninn hér á Íslandi, meðal annars rannsóknin Áfallasaga kvenna í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu, en hluti er unninn í Svíþjóð. Markmið rannsóknanna er að varpa ljósi á breytileika í heilsufarsþróun í kjölfar áfalla. Fyrstu niðurstöður úr sænska hluta verkefnis okkar hafa birst á síðastliðnu ári í þremur vísindagreinum í tveimur af fremstu alþjóðlegu vísindatímaritunum í læknisfræði. Í þessum rannsóknum fylgdum við eftir á bilinu 106-145.000 einstaklingum með áfalla- og streitutengdar raskanir, þar á meðal áfallastreituröskun, áfallastreituviðbrögð, aðlögunarröskun og önnur streitutengd viðbrögð, og bárum sjúkdómsáhættu þeirra saman við alsystkini þeirra og óskylda einstaklinga (kyn- og aldursparað) án slíkra raskana. Í rannsóknarsniði og tölfræðilegri úrvinnslu lögðum við okkur fram um að taka tillit til félags- og hagfræðilegrar stöðu, sögu um fyrri sjúkdóma (geðrænna og líkamlegra) og annarra blöndunarþátta. Niðurstöður sýna ótvírætt að fólk með áðurnefndar áfallatengdar raskanir er í um 30% aukinni áhættu á fjölmörgum sjálfsofnæmissjúkdómum,4 30-60% aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum5 og um 50% aukinni áhættu á ýmsum lífshættulegum sýkingum á borð við heilahimnubólgu, hjartaþelsbólgu og blóðsýkingum.6 Yngri einstaklingar með áfallatengdar raskanir voru í meiri áhættu á ofangreindum sjúkdómum sem og einstaklingar með svæsnari áfallatengdar raskanir. Á hinn bóginn virtist áhætta á þessum illvígu sjúkdómum vera minni meðal fólks sem tók SSRI-lyf fyrsta árið eftir greiningu áfallatengdu röskunarinnar, sem gefur ákveðna vísbendingu um gagnsemi slíkra íhlutana.

Starfi okkar er hvergi nærri lokið en í deiglunni eru meðal annars rannsóknir á áhrifum slíkra raskana á þróun taugasjúkdóma og krabbameina, og erfðarannsóknir á breytileika heilsufars í kjölfar áfalla.

Þessi nýja þekking á brýnt erindi við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk með skjólstæðinga og aðstandendur þeirra sem eru að ganga í gegnum mjög þungbæra lífsreynslu. Hér getur fræðsla, aukið eftirlit, skimun og, eftir atvikum, tilvísun í geðheilbrigðisþjónustu skipt máli til að minnka líkur á frekari heilsubresti hjá þessum viðkvæmu hópum.

Frétt á Kjarninn