BEST AÐ VERA TIL STAÐAR - afallasaga.is
15327
post-template-default,single,single-post,postid-15327,single-format-standard,bridge-core-2.1,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-title-hidden,qode_grid_1200,qode-theme-ver-19.7,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive,elementor-default,elementor-kit-16425

BEST AÐ VERA TIL STAÐAR

Viðtal í Fréttablaðinu við Eddu Björk Þórðardóttir, doktor í lýðheilsuvísindum, sem segir jafn mikilvægt að sýna sjálfum sér samkennd, væntumþykju og sjálfsalúð eins og öðrum ástvinum og samborgurum þegar erfiðleikar og áföll banka upp á í lífinu.

Edda Björk Þórðardóttir
Edda Björk Þórðardóttir er doktor í lýðheilsuvísindum.

Ég hef mikinn áhuga á að taka þátt í að bæta lýðheilsu þjóðarinnar og hef frá unga aldri haft óbilandi áhuga á því hvernig fólk tekst á við erfiðleika í lífinu, en líka hvað við sem samfélag getum gert til að hjálpa fólki að ná sér eftir áföll,“ segir Edda Björk Þórðardóttir, doktor í lýðheilsuvísindum.

Hún ætlar að flytja erindið Hvernig er gott að bregðast við áföllum? og ræða áföll og afleiðingar þeirra í heimspekikaffi með Gunnari Hersveini rithöfundi og heimspekingi í Borgarbókasafninu í Gerðubergi annað kvöld.

„Það er mikilvægt að við hugum vel að okkur sjálfum eftir hvers kyns áföll,“ segir Edda. „Stuðningur ástvina skiptir einnig miklu máli, að vera virkur hlustandi og að sýna skilning og samkennd.“

Flestir upplifa áföll í lífinu

Edda segir meirihluta fólks upplifa áföll á lífsleiðinni og að samfélagið beri mikla ábyrgð á því hvernig til tekst með bata.

„Helstu áföll eru missir ástvina, alvarlegur heilsubrestur, náttúruhamfarir, slys og andlegt og líkamlegt ofbeldi. Þá er kynferðisofbeldi mun algengara en áður var talið. Árið 1980 var ennþá talið að kynferðisofbeldi meðal barna væri eitt á móti milljón en í dag hafa rannsóknir leitt í ljós að það er mun algengara, eða um það bil ein af hverjum fjórum stúlkum og einn af hverjum tíu drengjum.“

Við Miðstöð í lýðheilsuvísindum eru skoðuð áhrif áfalla á andlega og líkamlega heilsu.

„Algengasta afleiðing alvarlegra áfalla er áfallastreituröskun,“ útskýrir Edda. „Áfallastreita er eðlilegt viðbragð við áfalli og einkennist af endurupplifun atburðarins, í formi martraða, og endurteknum minningum um atburðinn. Þeir sem þjást af áfallastreitu forðast einnig að hugsa um hluti sem tengjast áfallinu og tilfinningar tengdar því. Þeir upplifa neikvæðar breytingar á líðan sinni og hafa minni áhuga á að taka þátt í daglegum athöfnum. Fólk getur orðið tilfinningadofið og á stöðugu varðbergi, stutt er í pirring og reiðiköst. Einkenni áfallastreituröskunar skerða lífsgæði verulega, þau hafa áhrif á nám og vinnu, heimilislífið og heilsu fólks. Þess vegna er mikilvægt að fólki standi meðferð til boða.“

Árangursríkar meðferðir til

Edda segir mikilvægt að hafa í huga að meirihluti einstaklinga nær bata án meðferðar en ef einkenni minnka ekki eða ágerast á fyrstu vikunum eftir áfall, er mikilvægt að leita til fagaðila.

„Í dag eigum við mjög góðar meðferðir við áfallastreitu sem rannsóknir sýna að skila góðum árangri. Það er áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð og EMDR-meðferð. Margir leita á heilsugæsluna vegna kvíða, svefnvandamála og þunglyndis þegar rótin er áfallastreita og margir hafa burðast með áfallastreitueinkenni síðan þeir voru á barnsaldri, án þess að gera sér grein fyrir því. Því þyrfti að skima fyrir áfallastreitu á heilsugæslustöðvunum og koma fólki í réttan farveg. Það á rétt á að vita hvaða meðferðir skila árangri og mikilvægt að fólk þvælist ekki lengi um í kerfinu í leit að viðunandi meðferð og fái ekki meðferðina sem virkar.“

Niðurstöður rannsókna sýna tengsl á milli áfalla og líkamlegra sjúkdóma á borð við magasár, liðagigt og mígreni. Í gangi eru langtímarannsóknir til að skoða þau tengsl betur og í Bandaríkjunum er unnið að stórri rannsókn sem skoðar áföll í æsku og tengsl þeirra við heilsufar á fullorðinsárum. Niðurstöður sýna að börn sem búa við ofbeldi eða við erfiðar heimilisaðstæður glíma við verra andlegt og líkamlegt heilsufar.

„Við þurfum að beina athygli okkar að þessu í enn ríkari mæli. Við vitum að félagslegur stuðningur gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að bata, og hvernig nærumhverfið og samfélagið bregst við. Eftir því sem áföll eru alvarlegri eykst hætta á kvíða, þunglyndi, svefnvandamálum og áfallastreitu. Nú vitum við hvaða meðferð virkar við áfallastreitu og þá skiptir miklu að hún sér aðgengileg og niðurgreidd fyrir þá sem þurfa á henni að halda því það hafa ekki allir tök á að greiða tíma hjá sálfræðingum,“ segir Edda.

Sjálfsalúð er mikilvæg

Þegar áföll dynja yfir geta eðlileg viðbrögð verið mjög breytileg.

„Þá gildir að vera til staðar fyrir fólkið okkar, vini og vinnufélaga og láta þá vita að þeir geti leitað til okkar,“ segir Edda. „Fólk sem hefur lítið sem ekkert félagslegt net að baki þarf félagslegan stuðning og aðgengilega meðferð. Í kjölfar MeToo-byltingarinnar þekkja nú margir einstaklinga sem hafa opnað sig fyrir því að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Það þarf mikinn kjark til að greina frá slíkri reynslu og með því að vera virkur hlustandi og sýna fólki skilning og samkennd, án þess að spyrja of ítarlega um atburðinn, leggur maður sitt af mörkum.“

Mikilvægt hugtak innan sálfræðinnar er sjálfsalúð.

„Sjálf hafði ég ekki hugsað út í sjálfsalúð fyrr en ég fór að læra um hana í sálfræðinni,“ segir Edda um hugtakið sem lýtur að því hvernig við komum fram við sjálf okkur þegar illa gengur í lífinu.

„Þá eigum við að sýna okkur alúð og nærgætni, á sama hátt og við gerum við vini þegar erfiðleikar dynja á. Við slíkar aðstæður mundi maður hiklaust klappa honum á öxlina, segja að hann komist í gegnum þennan dag og að við séum til staðar fyrir hann. En því miður er okkur tamt að grípa til sjálfsgagnrýni og vera hörð við okkur sjálf. Sem samfélag getum við öll verið til staðar og gefið meðvitað af okkur þegar meðborgarar okkar ganga í gegnum erfiðleika. Það er jákvætt fyrir alla.“

Edda segir brýnt að kenna börnum sjálfsalúð í skólum lands.

„Í skólanum leggjum við áherslu á samkennd með náunganum en kennum ekki hvernig við eigum að tala við okkur sjálf né að temja innri rödd. Því mætti kenna börnum, sem og fullorðnum, að sýna sjálfum sér alúð og væntumþykju þegar erfiðlega gengur í stað niðurrifs sem oftar verður fyrir valinu. Sem samfélag getum við gert það í skólakerfinu.“

Rannsaka áfallasögu kvenna

Edda hlakkar til að eiga samræður við gesti heimspekikaffisins í Gerðubergi annað kvöld.

„Þar ætlum við að ræða um hvaða gildi koma helst við sögu í kringum áföll. Þegar við íhugum framkomu okkar við aðra sjáum við hversu miklu skiptir að sýna samkennd, umhyggju og skilning, og það sama gildir um okkur sjálf. Það er erfitt að takast á við erfiða atburði og því mikilvægt að sýna sjálfum sér sömu samkennd og öðrum.“

Edda segir óþarft að vera feiminn eða hikandi þegar samferðamenn okkar lenda í áföllum.

„Það þykir öllum vænt um það þegar fólk segist hugsa til þeirra eftir að þau hafa gengið í gegnum erfiða reynslu. Segir að því þyki virðingarvert og virkilega leitt að frétta af því þegar einhver greinir opinberlega frá erfiðri reynslu eða lætur vita að það sé til staðar fyrir þann sem á þarf að halda, eftir missi eða önnur áföll, og spyr hvort eitthvað sé hægt að gera til að létta fólki lífið. Það geta verið praktísk atriði, sem skipta fólk miklu en það á erfitt með, eins og að kaupa í matinn, taka skurk í þvottakörfunni eða passa börnin. Allt skiptir það máli og fólk man yfirleitt ævilangt hver stóð við bak þess og var til staðar á erfiðum tímum.“

Á næstu vikum fer í gang ein stærsta rannsókn landsins í lýðheilsuvísindum en hún er líka ein sú stærsta á heimsvísu á sínu sviði.

„Rannsóknin heitir Áfallasaga kvenna og verður öllum konum á Íslandi, 18 ára og eldri, boðið að taka þátt. Ætlunin er að skoða algengi áfalla á meðal íslenskra kvenna og tengsl þeirra við andlega og líkamlega heilsu. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að þekkja umfang vandans fyrir forvarnir og stefnumótun framtíðar,“ segir Edda.