EFTIRFYLGDARRANNSÓKN 2024 - afallasaga.is
16529
page-template,page-template-full_width,page-template-full_width-php,page,page-id-16529,bridge-core-2.1,ajax_fade,page_not_loaded,,qode_grid_1200,qode-theme-ver-19.7,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive,elementor-default,elementor-kit-16425
 

EFTIRFYLGDARRANNSÓKN 2024

Áfallasaga kvenna er vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands sem miðar að því að auka þekkingu á ýmsum áföllum á lífsleiðinni, þar á meðal ofbeldi, og áhrifum þeirra á heilsufar kvenna.

Rannsóknin nær til allra íslenskumælandi kvenna 18 ára og eldri og er ein stærsta vísindarannsókn á heimsvísu á þessu sviði. Gagnaöflun í fyrsta fasa rannsóknarinnar hófst 1. mars 2018 og lauk 1. júlí 2019. Alls skráðu 31.780 konur sig til þátttöku og svöruðu rafrænum spurningalista. Við viljum þakka öllum þessum konum kærlega fyrir þeirra mikilvæga framlag.

Þessi góða þátttaka hefur skilað sér í mikilvægri þekkingu um algengi og heilsufarsáhrif áfalla og hafa þegar yfir 10 vísindagreinar verið birtar í alþjóðlegum vísindatímaritum og margar fleiri eru nú í vinnslu.

Niðurstöður rannsóknarinnar hafa meðal annars sýnt að:

  • Þriðjungur kvenna á Íslandi hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað einhvern tíma á lífsleiðinni (fréttatilkynning).
  • Sterk tengsl eru milli fjölda áfalla í æsku og geðheilsuvanda, og skertrar getu kvenna til að takast á við áskoranir daglegs lífs á fullorðinsárum (fréttatilkynning).

Áfallasaga kvenna er langtímarannsókn en mikilvægt er að fylgja eftir mögulegum heilsufarsáhrifum áfalla til lengri tíma, og skoða hvernig tíðni ólíkra áfalla breytist yfir tíma. Þá er einnig mikilvægt að kanna tengsl áfalla við heilsutengda hegðun og viðhorf. Annar fasi rannsóknarinnar er nú hafinn, þar sem fyrri þátttakendur eru beðnir um að svara nýjum spurningalista.

Í eftirfylgdarrannsókn 2024 verður meðal annars leitast við að svara eftirfarandi spurningum:

  • Hver er tíðni áfalla og þungbærrar lífsreynslu meðal kvenna á Íslandi?
  • Hvaða áhrif hafa áföll á sálræna og líkamlega heilsu, lífsstíl og heilbrigðisþjónustuþörf kvenna?
  • Hvaða áhrif hafa eftirmálar áfalla, t.d. viðbrögð og stuðningur, á afleiðingar áfalla?

Væntingar standa til þess að rannsóknin muni skila aukinni þekkingu á algengi og vægi áfalla, þar á meðal ofbeldis, á heilsufar kvenna til lengri tíma. Slíkar niðurstöður er hægt að nýta til forvarna og meðferðar við alvarlegum heilsufarsáhrifum áfalla.

Hvað felur þátttaka í sér?

Svörun rafræns spurningalista. Auk almennra bakgrunnsupplýsinga, snúa spurningarnar aðallega að mögulegum áföllum og þungbærri reynslu á lífsleiðinni, svipað fyrri spurningarlista. Núverandi spurningarlisti tekur einnig til ýmissa þátta kvenheilsu, lífshátta, eftirmála áfalla og notkun heilbrigðisþjónustu.

Það tekur um 30 til 50 mínútur að svara spurningalistanum. Svörun kann að vekja vanlíðan hjá einhverjum, en þátttakendum býðst stuðningur og ráðgjöf sérfræðings á Landspítala ef á þarf að halda.

Hvernig skrái ég mig í rannsóknina?

Aðeins þær konur sem tóku þátt í fyrsta hluta Áfallasögu kvenna, árin 2018-2019, geta tekið þátt í eftirfylgdarrannsókn 2024. Hægt er að skrá sig hér neðar með rafrænum skilríkjum og þar á eftir þarf að staðfesta þátttöku á rafrænan hátt. Í kjölfarið er beðið um netfang og farsímanúmer og þannig fá þátttakendur sendan hlekk á rafrænan spurningalista. Hægt er að svara spurningalistanum í tölvu, síma eða spjaldtölvu, en mælt er með að svara í tölvu eða í spjaldtölvu ef kostur er.
Þrátt fyrir innskráningu með rafrænum skilríkjum er þátttaka í rannsókninni nafnlaus og ópersónugreinanleg.

Þátttaka í rannsókninni er algjörlega valfrjáls, þú getur valið að sleppa einhverjum spurningum eða að hætta þátttöku alfarið hvenær sem er í ferlinu og farið fram á að gögnum um þig sé eytt.

Öryggi

Eru upplýsingar um mig öruggar?
Upplýsingarnar sem þátttakendur veita gegnum spurningalistann eru vistaðar samkvæmt evrópskum lögum um gagnaöryggi á dulkóðuðu formi í aðgangsstýrðum gagnaverum hjá upplýsingatæknisviði Háskóla Íslands og samstarfsaðila okkar, SMART-TRIAL. Upplýsingarnar eru einungis notaðar til vísindarannsókna sem hlotið hafa samþykki Vísindasiðanefndar og Persónuverndar. Vísindafólk vinnur með gögn á dulkóðuðu formi (án persónurekjanlegra upplýsinga) þannig að ekki er hægt, á neinu stigi rannsóknarinnar, að rekja svör úr spurningalistanum til einstaklinga.

Ábyrgðaraðilar

Hverjir standa að rannsókninni?

Ábyrgðamaður rannsóknarinnar er Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands (unnurav@hi.is). Rannsóknin er unnin í samstarfi vísindafólks innan Háskóla Íslands, og annarra innlendra og erlendra stofnana. Nánari upplýsingar um rannsóknarteymið má finna hér.

Hvar get ég fengið frekari upplýsingar?
Ef þú hefur spurningar um rannsóknina eða vilt fá frekari upplýsingar um þátttöku þína, þá getur þú sent póst á netfangið: afallasaga@hi.is.