Fjórðu hverri konu nauðgað eða það reynt - afallasaga.is
15373
post-template-default,single,single-post,postid-15373,single-format-standard,bridge-core-2.1,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-title-hidden,qode_grid_1200,qode-theme-ver-19.7,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive,elementor-default,elementor-kit-16425

Fjórðu hverri konu nauðgað eða það reynt

Frétt birtist á ruv.is 8. mars 2019 þegar fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna voru kynntar fyrir fullu húsi í sal Íslenskrar Erfðagreiningar.

Fyrstu niðurstöður í umfangsmikilli rannsókn á áfallasögu kvenna sýna að fjórðungi kvenna hefur verið nauðgað eða tilraun verið gerð til að nauðga þeim. Arna Hauksdóttir, prófessor í Lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, segir að það sé hærra hlutfall en hún hafi séð áður, bæði í innlendum og erlendum rannsóknum.

Um 20 prósent kvennanna höfðu orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og helmingur orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Rannsóknin er mjög stór og er stefnt að því að ná til allra kvenna á Íslandi. Um 50 þúsund konur voru boðaðar í rannsóknina í vor og hafa 24 þúsund konur svarað, sem er mjög góð þátttaka.  

Arna segir að þegar farið var að skoða niðurstöðurnar hafi strax komið í ljós að talsvert hærra hlutfall kvenna en áður upplifi hin ýmsu áföll. „T.d. hefur fjórðungur kvenna upplifað nauðgun eða nauðgunartilraun, sem er hærra en við höfum séð og eru nokkuð sláandi upplýsingar. Það eru um 20 prósent sem hefur upplifað annað líkamlegt ofbeldi, um helmingur hefur upplifað andlegt ofbeldi eða einelti og um 40% framhjáhald eða höfnun af hendi maka.“

Hærra hlutfall en mælst hefur áður

Þetta hlutfall kvenna sem hefur verið nauðgað, er það hærra en þú hefur séð áður og þá hvar? 

„Bæði í erlendum og innlendum rannsóknum. Og almennt þá hafa rannsóknir sýnt að um þriðjungur hefur upplifað einhvers konar kynferðislegt ofbeldi eða áreitni en þarna erum við að spyrja mjög skýrt annaðhvort um nauðgun eða nauðgunartilraun og um rúmlega fjórðungur segist hafa upplifað það. Kynferðisleg áreitni, t.d í okkar rannsókn hefur um helmingur upplifað kynferðislega áreitni sem er ekki síður áhugavert. Það er ansi sláandi líka.“ 
 
Arna segir að þetta hafi komið á óvart. Mjög mikilvægt sé að fá fleiri þátttakendur inn í rannsóknina til að hægt sé sjá hvort um rétta mynd sé að ræða. Mikilvægt sé að fá allar konur inn í rannsóknina, líka þær sem ekki telji sig hafa orðið fyrir áfalli. 

Konur endurmátu lífsreynslu sína vegna #MeToo

Eru líkur á því að þarna sé einhver slagsíða? 

„Við hreinlega vitum það ekki. Það getur alveg verið því rannsóknin fór mjög hratt af stað og þátttakendur komu mjög hratt inn í rannsóknina. Og það getur vel verið að þær konur sem hafa upplifað áföll hafi flýtt sér af stað og tekið þátt til að leggja sitt af mörkum. Hins vegar held ég að #MeToo hafi gefið konum ákveðið endurmat á sínar upplifanir og það getur verið að þær hafi áttað sig á að þær hafi upplifað áföll sem þær hefðu kannski ekki áttað sig á áður.“

Gerist í jafnréttissinnaðasta landi í heimi

Ef þetta er rétt, hvað segir þetta okkur um íslenskt samfélag?  

Þetta er náttúrlega áhugavert að skoða þetta í íslensku samfélagi sem mælist jafnréttissinnaðasta land í heimi trekk í trekk eða svona með mjög hátt jafnrétti, að þessir hlutir skuli vera í þessari stöðu hér á landi. Og þá getur maður bara hugsað sér hvernig þetta er í öðrum löndum þar sem jafnréttið er ekki mjög hátt. Hins vegar höfum við alla burði til að breyta þessu og fyrsta skrefið er að búa til  nýja þekkingu og síðan viljum við breyta þessu.“ 

Hægt er að taka þátt í rannsókninni á afallasaga.is.