Svefnvandi algengur meðal íslenskra kvenna
16453
post-template-default,single,single-post,postid-16453,single-format-standard,bridge-core-2.1,ajax_fade,page_not_loaded,,no_animation_on_touch,qode-title-hidden,qode_grid_1200,qode-theme-ver-19.7,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive,elementor-default,elementor-kit-16425

Svefnvandi algengur meðal íslenskra kvenna

Nýjar niðurstöður úr rannsókninni Áfallasaga kvenna voru birtar á vef SLEEP í maí 2022.

Í maí síðastliðnum birtist grein í vísindatímaritinu SLEEP þar sem fjallað var um almenn svefnvandamál á meðal þátttakenda í Áfallasögu kvenna. Aðalhöfundur greinarinnar var Anna Bára Unnarsdóttir, doktorsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, en hana skrifaði hún undir handleiðslu Eddu Bjarkar Þórðardóttur, lektor við sömu deild.

Svefn kvenna á Íslandi hefur lítið verið rannsakaður til þessa en ýmsar vísbendingar benda til þess að svefnvandamál séu algeng (1,2). Markmið þessarar rannsóknar var að kanna algengi svefnvandamála meðal kvenna hér á landi og hvaða félagshagfræðilegu og heilsutengdu þættir tengjast helst þessum svefnvandamálum.

Rannsóknin byggist á svörum 29.681 kvenna á aldrinum 18-69 ára þátt í Áfallasögu kvenna frá mars 2018 til júlí 2019, eða tæplega 30% kvenna á Íslandi á þessum aldri.

Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að stór hluti íslenskra kvenna (eða 65.5%) höfðu upplifað svefnvandamál á síðastliðnum mánuðinum og nærri fjórðungur (24.2%) greindi frá alvarlegum svefnvanda. Þetta hlutfall er hærra en í sambærilegum rannsóknum sem gerðar hafa verið á konum annarsstaðar á heimsvísu. Nærri helmingur kvenna náðu ekki viðmiðum um ráðlagða svefnlengd (7 klst. á sólarhring) og 44.9% voru meira en 30 mínútur að sofna á kvöldin. Eins gáfu niðurstöður rannsóknarinnar til kynna að nærri þriðjungur kvenna (32.3%) hafi notað svefnlyf, ýmist lyfseðilsskyld eða án lyfseðils, á síðastliðnum mánuðinum. Þá voru konur sem tóku þátt í rannsókninni yfir vetrarmánuðina frekar með alvarlegan svefnvanda þegar dagsbirtan var takmörkuð en konur sem tóku þátt yfir sumarmánuðina. Þetta má hugsanlega rekja til meiri árstíðabundinna breytinga á dagsbirtu og aukinni útsetningu á blárri birtu frá loftljósum á stuttu birtutímabilum norðurskautsvetranna.

Einnig gáfu niðurstöður rannsóknarinnar til kynna að félagshagfræðilegar áskoranir, vaktavinna, reykingar, óhófleg áfengisneysla og aukin skjánotkun tengdust aukinni hættu á alvarlegum svefnvanda.

Aðstandendur rannsóknarinnar benda á að niðurstöðurnar sýni að þörf sé á frekari stefnumótun í samfélaginu og þróun fyrirbyggjandi aðferða og inngripa til að draga úr hættunni á alvarlegum svefnvanda og afleiðingunum sem honum getur fylgt.


Heimildir

  1. Embætti landlæknis. Mælaborð: Stuttur svefn fullorðinna. Hlutfall fullorðinna sem sefur að jafnaði 6 klukkustundir eða minna á nóttu. Sótt af https://www.landlaeknir.is
  2. Ólafur B. Einarsson, Jón Pétur Einarsson og Andrés Magnússon. 2018. Margir sem ofnota svefnlyf á Íslandi. Læknablaðið. Sótt af https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item35978/margir-sem-ofnota-svefnlyf-a-islandi

Rannsóknina má nálgast á vef tímaritsins SLEEP 

Nánari upplýsingar veitir Anna Bára Unnarsdóttir, abu@hi.is