"Þetta er í raun langtímarannsókn" - afallasaga.is
15375
post-template-default,single,single-post,postid-15375,single-format-standard,bridge-core-2.1,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-title-hidden,qode_grid_1200,qode-theme-ver-19.7,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive,elementor-default,elementor-kit-16425

„Þetta er í raun langtímarannsókn“

Fréttin birtist á vef Ríkisútvarpsins 8. mars 2019

Eitt af aðalmarkmiðum rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna er að kanna til lengri tíma hvernig áfallastreita hefur áhrif á líkamlega líðan til framtíðar. Þetta segir Arna Hauksdóttir, prófessor í Læknadeild Háskóla Íslands, einn aðstandenda rannsóknarinnar. Gögnin sem fengust úr rannsókninni geti verið efniviður rannsókna næstu ára og jafnvel áratuga.

Rannsóknin Áfallasaga kvenna er unnin á vegum Háskóla Íslands í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu og er markmið hennar að varpa ljósi á heilsufar kvenna í kjölfar áfalla. Rannsóknin hófst fyrir ári og hafa þegar um 30þúsund konur tekið þátt. Unnur Valdimarsdóttir prófessor við læknadeild Háskóla Íslands sagði í kynningu á rannsókninni í hádeginu að hér á landi séu til einstakar aðstæður til slíkrar rannsóknar bæði vegna erfðaupplýsinga Íslenskrar erfðagreiningar og gagnagrunna um heilsufar íslensku þjóðarinnar. 

„En við eigum engan gagnagrunn um áfallasögu. Sá gagnagrunnur er að verða til núna og það er það sem við höfum lagt upp í þessu verkefni,“ sagði Unnur í sínu erindi. 

Samkvæmt fyrstu niðurstöðum rannsóknarinnar hefur um þriðjungur íslenskra kvenna orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi í námi eða starfi, þar af um sjö prósent í núverandi starfsumhverfi. Arna Hauksdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, segir að hugmyndin að þessum þætti rannsóknarinnar hafi sprottið af metoo-umræðunni. „Þannig að við lögðum inn spurningu um þetta og gátum flokkað hana eftir metoo-hópunum sem komu fram og sáum þá að í heildina voru það sjö prósent kvenna sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á núverandi vinnustað, 30 prósent einhvern tíma, en þessi sjö prósent voru ólík eftir starfsgreinum, allt frá því að vera fimm prósent og upp í að vera vel yfir tíu prósent. Það var algjörlega skýrt að það voru til dæmis þær sem voru með lægstu tíðnina voru konur til dæmis í menntakerfinu en með hæstu hópunum voru konur í ferðaþjónustunni, konur í réttarvörslukerfinu, það er að segja lögreglumenn og lögfræðingar, konur í  hópi sem við kölluðum Í sviðsljósinu sem eru stjórnmálakonur, sviðslistakonur og fjölmiðlakonur, og þetta voru hópar sem voru að mælast mun hærri en aðrir hópar. Er hægt að draga einhverjar ályktanir af þessum fyrstu niðurstöðum? Þetta sýnir okkur bara hvað konur vinna í ólíku starfsumhverfi. Konur í menntakerfi vinna mest með öðrum konum á meðan konur í þessum hinum geirum eru í öðruvísi umhverfi, og kannski oft og tíðum karlægari umhverfi, og hitta fleira fólk og eru útsettari þar af leiðandi fyrir svona atburðum.“

Áhrif áfallastreitu komi fram í líkamlegri heilsu

Ríflega fimmtungur þátttakenda sýnir sterk einkenni áfallastreituröskunar en í rannsókninni voru áföll skilgreind víðar og látin ná einnig yfir félagsleg áföll eins og einelti og framhjáhald. Konur sem hafa orðið fyrir kynferðislegu eða öðru líkamlegu ofbeldi eru í mestri hættu á að þróa með sér áfallastreituröskun. 

Arna segir að áhrif áfallastreituröskunar á heilsufar verði rannsökuð frekar í framhaldinu. „Það sem við sáum þegar við vorum að skoða áfallastreituröskun hér í okkar hópi að þá sáum við að það eru 23 prósent kvenna sem eru að greina frá slíku í dag. Það er óvenju hátt en það skýrist af því að við erum líka að spyrja um önnur áföll en þessi klassísku. Við sáum að þær sem eru með einkenni áfallastreitu voru í aukinni áhættu á að upplifa ýmis líkamleg einkenni eins og höfuðverki, magaverki, stoðverki. Mjög há tíðni á þreytu og orkuleysi, svefnvandamál og þær voru líka í áhættu á að vera með fleiri en eitt einkenni. Þannig að það eru mjög sterk tengsl á milli áfallastreitu og líkamlegra einkenna.“

„Þetta er eitthvað sem við að sjálfsögðu viljum rannsaka frekar og er eitt af aðalmarkmiðum rannsóknarinnar að geta skoðað þetta til lengri tíma. Við getum þá tengt við aðrar heilbrigðisskrár og skoðað hvernig áfallastreita í dag hefur áhrif á þróun líkamlegrar líðanar til framtíðar en einnig að skoða erfðafræði áfallastreitu og það gerum við í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu. Þetta er í rauninni langtímarannsókn. Við lítum þannig á að við erum að klára að safna gögnum fyrsta maí. Þá er svona fyrsta skrefinu lokið, þá erum við komin með gígantískar upplýsingar um áfallasögur og munum síðan í framhaldinu næstu árin og jafnvel áratugina hafa þarna efnivið sem við getum notað áfram til að rannsaka.“

Væntir frekari niðurstaðna í haust

Hvenær gerið þið ráð fyrir næstu niðurstöðum úr þessari rannsókn? „Ég hugsa að það verði þá lokaniðurstöður úr þessum hópi næsta haust, vonandi, þar sem við getum svona kynnt nákvæmlega hvernig hópurinn lítur út og  tengslin sem við sjáum þar.“ 

En er hætt við að þegar konur velja hvort þær taki þátt að meiri líkur séu á þátttöku þeirra kvenna sem hafa orðið fyrir áfalli og skekki þannig niðurstöðurnar? 

„Ekki frekar en í öðrum svona rannsóknum. Þetta er bara eins og hver önnur rannsókn að því leyti að konur samþykkja að taka þátt eða ekki og taka þá þátt. Það sem gladdi okkur mjög þegar við fórum að skoða þetta er að þátttakendur hafa mjög svipaðan bakgrunn og kvenþjóðin í heild sinni hvað varðar til dæmis menntun, tekjur aldur og búsetu. Þannig að þetta er svona allt jafnt hvað það varðar, þannig að það ætti ekki að vera meiri skekkja í þessari rannsókn en í öðrum.“

Meðalaldur þátttakenda er 44 ár og reyndist erfiðast að fá konur 18 til 25 ára til að taka þátt. Arna segir að reynt verði að ná til þessa aldurshóps, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla. „Það sem er líka mikilvægt er að við viljum auðvitað að sem flestar konur taki þátt. Við heyrum það stundum að konur telja sig ekki þurfa að taka þátt af því að þær hafi ekki upplifað áföll en við viljum að sjálfsögðu fá allar konur með af því að það eykur vísindalegt gildi rannsóknarinnar og gerir hana stærri og betri og það verður hægt að taka þátt til fyrsta maí.“ 

Frekari rannsóknir í undirbúningi á sama hópi kvenna

Arna segir að frekari rannsóknir séu í undirbúningi. „Þannig að konum verður jafnvel boðið að taka þátt í annars konar rannsóknum, sem hafa nú þegar tekið þátt, til dæmis varðandi lífsstíl, næringu, hreyfingu og annað sem við náðum ekki að spyrja að í þetta skiptið. Við viljum líka, og það er á planinu hjá okkur, að þróa  meðferð við áfallastreitu sem er hægt að sinna í gegnum netið. Þetta kennir okkur þ að að við þurfum betri úrræði við áfallastreitu, við þurfum aukið aðgengi að meðferð og eitt af því væri að þróa einfaldari og hagkvæmari meðferðir sem er hæg að bjóða upp á í gegnum netið.   Að síðustu þá stefnum við að því að framkvæma áfallasögu karla því að það hefur sýnt sig að það er líka mikill áhugi á því. Það var alltaf á planinu hjá okkur þannig að þetta hvetur okkur enn áfram í því.“