VÍSINDIN EIGA MIG ALLA - afallasaga.is
15261
post-template-default,single,single-post,postid-15261,single-format-standard,bridge-core-2.1,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-title-hidden,qode_grid_1200,qode-theme-ver-19.7,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive,elementor-default,elementor-kit-16425

VÍSINDIN EIGA MIG ALLA

VIÐTAL VIÐ UNNI VALDIMARSDÓTTUR VÍSINDAMANN OG FORSVARSKONUR ÁFALLASÖGU KVENNA SEM BIRTIST Í MORGUNBLAÐINU 4. MARS 2018

Pétur Marteinsson, Lilja Hugrún og Unnur Anna Valdimarsdóttir.
Pét­ur Marteins­son, Lilja Hug­rún og Unn­ur Anna Valdi­mars­dótt­ir. mbl.is/​Hanna Andrés­dótt­ir

Einn fremsti vís­indamaður okk­ar Íslend­inga, Unn­ur Anna Valdi­mars­dótt­ir, set­ur markið ekki lágt og ætl­ar sér að ná til um 110 þúsund ís­lenskra kvenna. Hún hef­ur frá blautu barns­beini verið afar orku­mik­il, svo virk raun­ar sem barn að for­eldr­ar henn­ar treystu sér ekki með hana í frí. Á sumr­in rækt­ar hún sveita­varg­inn í sér og bak­ar klein­ur en er þess á milli frum­mynd­in af Vest­ur­bæ­ingi.Unn­ur A. Valdi­mars­dótt­ir er vís­indamaður sem Íslend­ing­ar eru farn­ir að kann­ast við. Hún er orðin einn „frægra“ vís­inda­manna hér heima en ólíkt því sem ger­ist í Svíþjóð til dæm­is, þar sem Sví­ar þekkja sína stærri fræðimenn, eru Íslend­ing­ar dug­legri að þekkja leik­ara og tón­list­ar­menn, nema þeir heiti kannski Kári Stef­áns­son og Ragn­ar skjálfti.

Frægt er orðið þegar Unn­ur hlaut 240 millj­óna króna styrk frá Evr­ópska rann­sókn­ar­ráðinu, þann stærsta sem ráðið veit­ir en auk þess hef­ur hún hlotið fjölda stórra rann­sókn­ar­styrkja til rann­sókna á sam­spili erfða og heilsu­fars­legra af­leiðinga sál­rænna áfalla. Unn­ur er doktor í klín­ískri far­alds­fræði sem hef­ur starfað stór­an hluta lífs síns er­lend­is en fyr­ir 10 árum kom hún heim og kom á fót námi í lýðheilsu­vís­ind­um hér­lend­is. Nú eru Unn­ur og henn­ar teymi að ráðast í stór­virki með því að fá all­ar ís­lensk­ar kon­ur, eldri en 18 ára til að taka þátt í rann­sókn, þeirri stærstu sem lagt hef­ur verið í hér á landi og jafn­framt er hún ein sú stærsta sinn­ar teg­und­ar á heimsvísu. Áður en við för­um ofan í saum­ana á því ætl­ar Unn­ur að segja les­end­um frá sjálfri sér. Við byrj­um á viðeig­andi stað:

Hvaðan ert þú og þitt fólk?

„Ég er að norðan, ólst upp á Ólafs­firði. Móðir mín, Guðrún Jóns­dótt­ir, er þaðan en föðurætt­in er úr Aust­ur-Húna­vatns­sýslu, faðir minn, Valdi­mar Ágúst Stein­gríms­son, ólst upp á sveita­bæ í Langa­dal og við eig­um ein­mitt sum­ar­hús þar sem við eyðum mikl­um tíma í.“

Er grunnt á sveit­inni í þér?

„Já. Ég held að vin­um mín­um, sem eru flest­ir borg­ar­börn, finn­ist ég svo­lítið sveita­leg. Þegar ég flutti á möl­ina til að fara í há­skól­ann var ég það sveitó að mér fannst sjúk­lega skemmti­legt að taka strætó. Var týp­an sem þáði ekki far því mér fannst svo mikið stuð í vagn­in­um. Það hef­ur kannski ekki al­farið þveg­ist af mér þótt ég hafi búið í borg­um síðustu 25 ár. Mér finnst mik­il svöl­un í því að vera nærri nátt­úru og ein­hvern veg­inn höfða svona grund­vall­ar bónda­leg sjón­ar­mið sterkt til mín. Á sumr­in breyt­ist ég í bónda­konu í Langa­dal, baka klein­ur, prjóna og hjálpa til við heyskap.“

Unnur Anna Valdimarsdóttir.
Unn­ur Anna Valdi­mars­dótt­ir. mbl.is/​Hanna Andrés­dótt­ir

Þrátt fyr­ir bónda­kon­una, þá sigld­ir þú úr heima­höfn, starfaðir er­lend­is í 10 ár og virðist í fljótu bragði ómengaður Vest­ur­bæ­ing­ur?

„Þetta er al­gjör­lega tvö­falt lag í mér. Sem barn í sveit­inni vissi ég alltaf að ég ætti ekki eft­ir að búa þar, vissi að ég ætlaði að læra og fara eitt­hvað, hafði mikla sigl­ingaþrá. Ég kann því líka mjög vel við mig í borg­inni og því menn­ing­ar­lífi sem hún hef­ur upp á að bjóða. En kjarn­inn er sveitó.“

Það er ekki að ástæðulausu sem blaðamaður smal­ar Unni inn á bás Vest­ur­bæ­inga en ýmis atriði styrkja þá staðal­mynd. Hvern ein­asta morg­un er hún til dæm­is í Vest­ur­bæj­ar­laug­inni og eig­inmaður henn­ar, Pét­ur Marteins­son fót­bolta­kempa með meiru, rek­ur Kaffi Vest. Sam­an eiga þau dótt­ur­ina Lilju Hug­rúnu.

„Við Pét­ur erum afar ólík að þessu leyti. Hann er hrein­ræktað borg­ar­barn, al­inn upp í Breiðholti og líður alltaf pínu ónot­an­lega þegar Hval­fjarðargöng­in nálg­ast. En hann læt­ur sig hafa það að vera með mér þenn­an bónda­tíma minn á sumr­in, þótt hann sé feg­inn þegar hann kemst aft­ur í espressóið sitt á morgn­ana. Sama hversu mikið ég væri í ess­inu mínu með mitt borg­ara­lega sjálf þá er hann bara á ann­arri plán­etu með sitt, líf hans og sál er hér.“

Rikki bak­ari skutlaði!

Bökk­um aðeins í um­hverfið sem mótaði þig.

„Mamma rak hár­greiðslu­stofu á Ólafs­firði sem var nokk­urs kon­ar kaffium­ræðusjoppa um leið. Um tíma var stof­an heima og maður kom heim eft­ir skóla, horfði á fínu lagn­ing­arn­ar verða til hjá kon­un­um, karl­ana rakaða og hlustaði á all­ar sög­urn­ar.

Á meðan mamma var í þessu var pabbi verk­stjóri og starfsmaður Vega­gerðar­inn­ar og hafði eft­ir­lit með öll­um veg­um í námunda við Ólafs­fjörð, meðal ann­ars hinum al­ræmda Ólafs­fjarðar­múla. Þetta voru oft frek­ar hættu­leg störf og ég man að þegar ég var 5 eða 6 ára féll snjóflóð á bíl­inn hans. Bíll­inn fór út af þver­hnípi niður í sjó. Hann náði að koma sér út, klöngraðist upp á veg og týndi gift­ing­ar­hringn­um ein­hvern veg­inn á leiðinni. Þótt ég væri feg­in að sjá pabba, er minn­ing­in sem stend­ur eft­ir alltaf sú að hann fékk far heim með bak­ar­an­um á Dal­vík. Það var nefni­lega ekki bakarí á Ólafs­firði og í mín­um aug­um var það hrein­lega æv­in­týra­lega æðis­legt að Rikki bak­ari hefði skutlað hon­um til baka!“

Móður­fjöl­skylda Unn­ar starfaði mikið í sjáv­ar­út­veg­in­um og öll sum­ur vann hún í fisk­verk­un afa síns og mágs hans, í salt­fiski. Hún var því með salt und­ir nögl­um og ís­köld öll sum­ur, að salta og verka fisk, frá 10 ára til 17 ára ald­urs, meira að segja í bónus­vinnu.

Þetta hljóm­ar svo­lítið eins og þú sért fædd 1952 en ekki 1972, í full­orðins­vinnu svona ung.

„Já og það fannst mér rosa­lega skemmti­legt. Ég vann með brjóst­góðu, nota­legu og vitru eldra fólki sem hafði ýmsa fjör­una sopið. En vissu­lega var þetta al­vöru. Maður byrjaði 20 mín­út­ur í sjö á morgn­ana og vann langt fram eft­ir degi. En þetta vildi maður, ég var að safna mér fyr­ir nýj­um skíðum og ein­hverju.

Ég get held­ur ekki sagt frá æsk­unni án þess að nefna föðurömmu mína, Unni Þor­leifs­dótt­ur. Hún og afi, Jón Ell­ert Sig­urpáls­son, bjuggu hér um bil í næsta húsi og við systkin­in þrjú átt­um því tvö heim­ili. Amma var eins kon­ar sam­viska þjóðar, mik­ill mátt­ar­stólpi og hélt utan um alla með mikl­um kær­leik enda heit­ir stór hluti af henn­ar niðjum annað hvort Unn­ur eða Unn­ar. Það var eitt­hvað við henn­ar nær­veru sem var bæði mjög hlýtt og skarpt. Hún var vel les­in, bæði um trú­mál eins og henn­ar kyn­slóð en líka í heim­speki og siðfræði og svo var hún mik­ill kúnstner. Ræktaði graslauk og ým­is­legt öðru­vísi á hjara ver­ald­ar og nota hrá­efni í matseld sem aðrir voru ekki komn­ir langt með.“

Hún hljóm­ar svo­lítið á und­an sín­um tíma?

„Hún var það. Ég sótti mikið í hana sem krakki, það þurfti að hafa svo­lítið ofan af fyr­ir mér, sjáðu til!“

Núna fer Unn­ur að út­skýra og held­ur því fram full­um fet­um að sem barn hafi hún ekki setið eina stund kjur og þagað, lýs­ir sér sem fyr­ir­ferðar­miklu barni sem for­eldr­arn­ir hafi ekki einu sinni treyst sér til að hafa með í sum­ar­frí. Það verður að segj­ast að kynni blaðamanns af Unni eru þannig að hann á bágt með að trúa henni og það eiga víst fleiri líka.

„Ég held að í dag væri ég á mörk­um ADHD-grein­ing­ar eða ein­hverr­ar hegðun­ar­rösk­un­ar. Það þurfti mikið að hafa ofan af fyr­ir mér og mamma kunni sín­ar aðferðir. Ég nefni­lega elskaði sög­ur og það eina sem gekk til að ég væri hljóð í smá­stund var að láta mig hlusta á sög­una um Dýr­in í Hálsa­skógi á plötu. Ég náði að vera hljóð, stillt og prúð þenn­an klukku­tíma en að öðru leyti var ég svo­lítið hæper, talaði mikið og var pínu óstýri­lát.“

Og þetta eru eng­ar ýkj­ur með að Unn­ur hafi verið send í pöss­un þegar for­eldr­arn­ir fóru í frí, að minnsta kosti fyrstu árin. Þá var hún send til frænd­fólks síns á Ak­ur­eyri, móður­bróður, Lárus­ar Jóns­son­ar alþing­is­manns, og eig­in­konu hans, Guðrún­ar Jóns­dótt­ur, meðan mamma og pabbi keyrðu hring­veg­inn.

Þú hljóm­ar svo­lítið eins og þú haf­ir verið að springa úr lífs­gleði, eða hvað?

„Já, ég held að ég hafi verið sér­lega glaður krakki sem sá litl­ar höml­ur á líf­inu og þar af leiðandi mjög virk í öllu, æfði skíði, lærði á pí­anó, fiðlu og söng í kór.“

Í Kína á slóðir dótt­ur­inn­ar

Unn­ur og Pét­ur voru ung þegar þau kynnt­ust en þrátt fyr­ir borg­ar­blóðið í Pétri var hann um tíma á Ólafs­firði, lék þar knatt­spyrnu með Leiftri og þau Unn­ur kynnt­ust í bæj­ar­vinn­unni, hún að verða tví­tug og hann 19.

Hver er lyk­ill ykk­ar að því að hafa verið sam­an all­ar göt­ur síðan? Og svo­lítið meira sam­an en kannski mörg pör því þið bjugguð líka ein í út­lönd­um í lengri tíma.

„Okk­ar lyk­ill er held ég bara að … Pét­ur er mjög umb­urðarlynd­ur,“ seg­ir Unn­ur og fliss­ar. „Nei, nei, í fullri al­vöru þá höf­um við kannski bara gefið hvort öðru þetta frelsi til að gera það sem okk­ur þykir skemmti­leg­ast á hverj­um tíma. Ég vona og upp­lifi það ekki þannig að við höf­um lagt ein­hver álög hvort á annað, þannig að það þurfi eitt­hvað ákveðið að vera að ger­ast, lífið eigi að vera ná­kvæm­lega svona eða hinseg­in. Við erum frek­ar sam­held­in og góðir vin­ir. Það er helst þessi borg­ar- og sveita­slagsíða sem veg­ur salt á milli okk­ar, að öðru leyti eru gildi og áhuga­mál sam­stillt.“

Áhuga­mál­in eru þá hver?

„Klass­ísk og miðaldra, okk­ur finnst gam­an að ferðast og svo höf­um við bæði áhuga á matseld. Svo erum við mikl­ir dýra­vin­ir, megnið af okk­ar sam­vist­um höf­um við átt hunda. Ferðalög­in skipa háan sess en við höf­um dregið dótt­ur okk­ar með í þetta allt þannig að hún er eins og þriðji aðil­inn í þessu öllu, ekki sem barn held­ur ein­stak­ling­ur. Þegar við bjugg­um með hana er­lend­is voru litl­ir mögu­leik­ar á að fá pöss­un þannig að við héld­um bara full­orðins­lífi okk­ar áfram með hana meðferðis í allt. Það hjálpaði að hún var af­skap­lega meðfæri­leg. Hún er borg­ar­stelpa eins og pabbi sinn, sem kann að meta gott Bístró í Par­ís.“

Þið ferðuðust ein­mitt síðasta sum­ar sam­an til Kína, að heim­sækja þær slóðir sem Lilja Hug­rún er ætt­leidd frá.

„Já, það var stór­kost­legt, við fór­um í Asíu-reisu. Ég þurfti að fara á nokkra fundi og ráðstefnu þarna er­lend­is og það var búið að vera draum­ur okk­ar að fara aft­ur þangað sem við sótt­um hana á sín­um tíma, miklu sterk­ari draum­ur hjá okk­ur en henni kannski. Henni fannst það al­veg áhuga­vert en sann­fær­ing­in um að þetta væri að ein­hverju leyti mik­il­vægt var sterk­ari hjá okk­ur, að þetta væri ein­hver varða sem við þyrft­um að fara út í.

Við byrjuðum í Víet­nam, vor­um þar í 10 daga, svo fór­um við yfir landa­mær­in og hitt­um vini okk­ar en ég vinn með tölu­vert mörgu fólki frá Kína og þau voru á leið á ráðstefnu með mér. Þau hittu okk­ur í héraðinu henn­ar Lilju og ferðuðust með okk­ur um Kína, bæði henn­ar hérað og svo fór­um við líka og heim­sótt­um heim­kynni þeirra. Fór­um meðal ann­ars í Sisúann-hérað og skoðuðum pönd­urn­ar en Lilja er líka mik­il dýra­kona, er að gera upp við sig hvort hún vilji vera Dav­id Atten­borough eða Ju­lia Roberts, dýra­lífs­fræðing­ur eða leik­ari.“

Náðuð þið að ferðast um Kína þegar þið sóttuð Lilju eða var þetta fyrsta tæki­færið?

„Þegar við sótt­um hana fór­um við á Múr­inn og menn­ing­ar­reisu í Pek­ing en við vor­um fyrst og fremst upp­tek­in af því að vera á leiðinni á fæðing­ar­deild­ina, al­gjör­lega með at­hygl­ina á henni og það voru bara pel­ar og bleyj­ur sem áttu huga okk­ar og ég upp­lifði Kína ekki á neinn hátt. Við erum mjög glöð með þessa ferð, þetta var eitt­hvað sem okk­ur langaði að gera þegar hún væri orðin eldri en samt ekki of göm­ul. Bara þetta að finna lykt­ina, borða mat­inn og slíkt var svo mik­il upp­lif­un.“

Heim á loka­metr­um góðæris

Hvað verður til þess að þú vel­ur þessa leið í námi upp­haf­lega, þegar þú ert búin með MA og ákveður að fara í sál­fræði, sem end­ar á því að þú verður doktor í far­alds­fræði?

„Ég var ákveðin í mennta­skóla að ég vildi læra eitt­hvað tengt líf­fræði, sál­fræði eða jafn­vel lækn­is­fræði. Hjá frá­bær­um líf­fræðikenn­ara í MA, Þóri Har­alds­syni, myndaðist sterk­ur áhugi hjá mér á þess­um fræðum. Svo æxlaðist það þannig að ég skráði mig í sál­fræði um leið og ég út­skrifaðist og varð strax áhuga­söm um tengsl til­finn­inga við lík­am­lega þætti.

Það er ein­mitt merki­legt að hugsa til þess að ég skrifaði loka­verk­efni mitt úr Há­skóla Íslands með Örnu Hauks­dótt­ur sem ég vinn ennþá með, um tengsl áfalla við þróun krabba­meina. Og það var fyr­ir 22 árum og við erum ennþá að rann­saka það sama! Enda verður þetta lík­lega nokk­urra kyn­slóða verk að skilja þetta or­saka­sam­hengi til hlít­ar.

Við Pét­ur vor­um að spá í að fara til Banda­ríkj­anna, bæði í frek­ara nám. Þá fékk hann til­boð frá klúbbi í Stokk­hólmi að spila þar og þangað lá leið okk­ar þegar ég var 24 ára göm­ul eða 1996. Þegar við vor­um kom­in þangað skoðaði ég mögu­leik­ana á að læra áfram það sem ég vildi gera og var fyrst aðstoðarmaður pró­fess­ors við Karol­inska áður en ég skráði mig inn í doktors­nám við Karol­inska há­skól­ann. Þar var ég í 6-7 ár, bæði sem doktorsnemi og nýdoktor. Við enduðum á að búa er­lend­is í 11 ár, bæði í Svíþjóð og svo Banda­ríkj­un­um.“

Hvernig var að vera vís­indamaður úti?

„Frá­bært. Svíþjóð er leik­völl­ur fyr­ir fólk í mín­um bransa. Bæði er svo mikið af leik­föng­um, það er að segja gögn­um, og rík hefð fyr­ir vís­ind­um. Nó­bels­verðlaun­in eru veitt þaðan og al­menn­ing­ur veit­ir vís­ind­un­um mikla at­hygli. Fram­lag hins op­in­bera til vís­inda er líka annað en það sem við eig­um að venj­ast. Það er að mörgu leyti for­rétt­indi að vera vís­indamaður þarna úti.

Við hefðum al­veg getað búið þarna áfram, en þegar við feng­um Lilju breytt­ist lífið og það má segja að hún hafi verið hvat­inn að því að við flutt­um heim. Við vild­um gjarn­an að hún fengi að upp­lifa sam­skipti við stór­fjöl­skyld­una.“

Þið flytjið þá heim árið 2007, á loka­metr­um góðær­is­ins fyr­ir hrun, hvernig var það?

„Ein­mitt, þetta er 2007, og líkt og marg­ir út­lend­ing­ar og Íslend­ing­ar sem höfðu verið fjarri heima­hög­um lengi skild­um við ekki hvað var í gangi. Þre­fald­ir jepp­ar, hvít­ar inn­rétt­ing­ar og skálað í kampa­víni út um allt, þetta var svo ýkt­ur veru­leiki. Ég man að stuttu áður, þegar við bjugg­um enn úti, höfðum við byrjað að fá spurn­ing­ar frá út­lend­ing­um: „Af hverju eru Íslend­ing­ar svona rík­ir?“ Ég man að ég hálf­móðgaðist, sagði að það væri bara ekk­ert rétt, þeir væru ekk­ert rík­ir!“

En mér fannst frá­bært að koma heim. Ég var ráðin sem dós­ent við lækna­deild og mín­ar helstu vinnu­skyld­ur voru að koma á stofn og byggja upp fram­halds­nám í lýðheilsu­vís­ind­um, þverfræðilegt masters- og doktors­nám og þetta var því anna­sam­ur tími. Klass­ískt var að eft­ir lang­an vinnu­dag lagði ég mig með Lilju á kvöld­in, blundaði kannski í kort­er, hálf­tíma, vaknaði svo og kýldi í mig 500 grömm­um af súkkulaði og vann áfram til 1-2 á nótt­unni. Þetta var takt­ur­inn fyrst, en skemmti­leg­ur tími með dá­sam­legu fólki inn­an há­skól­ans.“