Nýtt fréttabréf Áfallasögu kvenna
16879
post-template-default,single,single-post,postid-16879,single-format-standard,bridge-core-2.1,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-title-hidden,qode_grid_1200,qode-theme-ver-19.7,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive,elementor-default,elementor-kit-16425,elementor-page elementor-page-16879

Nýtt fréttabréf Áfallasögu kvenna

Nýjustu fréttir, rannsóknarniðurstöður og eftirfylgdarrannsókn

Starfsfólk Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum. Ljósmynd Kristinn Ingvarsson, Háskóla Íslands.

Fréttabréf Áfallasögu kvenna er gluggi inn í rannsóknina og liður í miðlun upplýsinga til þátttakenda og annarra áhugasamra.

Upplýsingar um rannsóknina

Fyrir fimm árum hófst rannsóknin Áfallasaga kvenna, sem er vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands. Alls skráðu um 31.780 konur sig til þátttöku í rannsókninni á árunum 2018-2019 eða um 30% kvenna hérlendis á aldrinum 18-69 ára. Þátttakendur endurspegluðu íslensku kvenþjóðina vel, hvað varðar aldur, búsetu, menntun og tekjur, eins og lesa má um hér.

Áfallasaga kvenna er langtímarannsókn og því mikilvægt að fylgja eftir mögulegum heilsufarsáhrifum áfalla til lengri tíma og skoða hvernig tíðni ólíkra áfalla breytist yfir tíma.

Eftirfylgdarrannsókn lýkur 8. apríl 2024

Í janúar 2024 hófst nýr áfangi Áfallasögu kvenna en nú býðst þeim konum sem tóku þátt í fyrsta áfanga rannsóknarinnar að taka aftur þátt og svara nýjum spurningalista um áföll, lífsstíl og heilsufar. Þátttaka fer vel af stað en nú hafa um 16.500 konur skráð sig til þátttöku. Við viljum ítreka þakkir okkar til þátttakenda fyrir þessa góðu þátttöku en hún gerir rannsóknina einstaka á heimsvísu og hefur þegar skilað sér í mikilvægri þekkingu á algengi áfalla og áhrifum þeirra á heilsufar kvenna. Um leið hvetjum við þær konur sem eiga eftir að taka þátt að gera það sem allra fyrst en lokað verður fyrir skráningu í eftirfylgdarrannsóknina 8. apríl næstkomandi, áfram verður þó hægt að svara spurningalistanum ef búið er að skrá sig.

Markmið eftirfylgdarrannsóknarinnar er að varpa frekara ljósi á áhrif áfalla á heilsufar kvenna, en nýjar áherslur snúa að ýmsum eftirmálum áfalla, viðbrögðum og úrvinnslu eftir áföllin, kvenheilsu, núverandi lífsháttum og notkun, ásamt þörf fyrir heilbrigðisþjónustu.

Birtar niðurstöður

Frá upphafi rannsóknarinnar hafa alls birst 13 vísindagreinar í alþjóðlegum vísindatímaritum með niðurstöðum úr Áfallasögu kvenna og forrannsókna hennar. Um 20 aðrar vísindagreinar eru í vinnslu eða í birtingarferli hjá alþjóðlegum vísindatímaritum.

Rannsóknir á vegum Áfallasögu kvenna hafa meðal annars skoðað heilsufarsafleiðingar áfalla í æsku og ofbeldis á lífsleiðinni. Hér má sjá yfirlit yfir helstu niðurstöður:

Helstu niðurstöður - Tíðni

Helstu niðurstöður - Heilsufarsáhrif

Niðurstöður í birtingaferli

Niðurstöður í birtingarferli benda til þess að áföll á lífsleiðinni sé sterkur forspárþáttur áfallatengdra svefnvandamála

  •  fíknisjúkdómum
  • að vera utan vinnumarkaðar
  • hærri líkamsþyngdarstuðli og offitu
  • sykursýki 2
  • ýmsum sjálfsónæmissjúkdómum
  • hærri tíðni geðrænna einkenna meðal hinsegin kvenna 

Niðurstöður í birtingarferli benda til þess að ofbeldi á lífsleiðinni tengist aukinni hættu á:

  • ýmsum líkamlegum einkennum og slakara almennu heilsufari
  • sjúkrafjarveru frá vinnu

Lóan er komin að kveða burt snjóinn

Síðasta haust hóf undirrannsókn Áfallasögu kvenna – Lóu rannsóknin – göngu sína og mun gagnasöfnun standa fram til ársins 2026. Helsta markmið rannsóknarinnar er að þróa einfalt inngrip til að bæta líðan fólks eftir áföll.

Mögulegir þátttakendur fá sent boð um þátttöku í tölvupósti og fá í framhaldinu ítarlegar upplýsingar um tilhögun rannsóknarinnar. Um er að ræða einfalt inngrip, sem felst í hugrænu verkefni og svörun spurningalista.

Allar ábendingar og fyrirspurnir um efni bréfsins er hægt að senda á afallasaga@hi.is